Erlent

Harry lagði Mirror í hakkaramáli

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Harry Bretaprins var að vonum hæstánægður með niðurstöðuna.
Harry Bretaprins var að vonum hæstánægður með niðurstöðuna. EPA-EFE/Christopher Neundorf

Harry Bretaprins hefur lagt eigendur breska götublaðsins Daily Mirror í máli sem hann höfðaði á hendur þeim fyrir að hafa brotist inn í síma hans. Þeim hefur verið gert að greiða prinsinum bætur sem nema 140 þúsund pundum eða rúmum 25 milljónum króna.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram a dómur hafi fallið í málinu í morgun. Dómari hafi fallist á að fimmtán greinar af 33 sem skrifaðar voru um prinsinn á árunum 2003 til 2009 hafi verið afsprengi þess að brotist hafi verið inn í síma prinsins og hann hakkaður.

Þá teldist það sannað að útgefandinn hefði beitt slíkum aðferðum frá 2006 til 2011. Áður hafði prinsinn borið vitni vegna málsins og sagt að umfjöllun blaðsins hefði valdið sér miklum harmi. Hann er fyrsti einstaklingurinn úr konungsfjölskyldunni til að bera vitni í dómsal í Bretlandi í í 130 ár.

Dómari í málinu telur ljóst að hátt settir einstaklingar hjá Mirror Group útgefandanum hafi vitað af því að brotist hafi verið inn í síma prinsins.

Talsmaður útgefandans hefur þegar beðist afsökunar vegna málsins. Segir útgefandinn að hann muni taka fulla ábyrgð á málinu.

Áður hafði útgefandinn einungis viðurkennt að hafa komist að upplýsingum um prinsinn með ólöglegum hætti í eitt skipti. Þá fullyrti lögmaður útgefandans að fréttir af prinsinum hefðu verið fengnar í gegnum heimildarmenn sem voru nánir honum.

Í yfirlýsingu frá prinsinum vegna niðurstöðu dómsins segir að dagurinn í dag sé frábær dagur fyrir sannleikann og ábyrgð. Málið hefði haft mikil áhrif á sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×