Erlent

Greiði mæðgunum ríf­lega tuttugu milljarða

Árni Sæberg skrifar
Rudy Giuliani, stendur frammi fyrir margvíslegum vandræðum vegna starfa hans fyrir Donald Trump.
Rudy Giuliani, stendur frammi fyrir margvíslegum vandræðum vegna starfa hans fyrir Donald Trump. EPA/JUSTIN LANE

Rudy Giuliani, fyrrverandi persónulegur lögmaður Donalds Trump og borgarstjóri New York borgar, hefur verið dæmdur til að greiða mæðgum, sem hann rægði með ásökunum um kosningasvindl, 148 milljónir dala. Það gerir ríflega tuttugu milljarða króna.

Mæðgurnar Ruby Freeman og Wandrea Moss sökuðu Giuliani um að hafa valdið þeim tilfinningalegum skaða og mannorðshnekki auk þess að stefna öryggi þeirra í hættu með lygum hans, um að þær hefðu átt við atkvæði við talningu eftir forsetakosningarnar árið 2020.

Alríkisdómstóll í Bandaríkjunum úrskurðaði í ágúst síðastliðnum að Giuliani hefði gefið mál sem mæðgurnar höfðuðu á hendur honum með því að afhenda ekki rafræn gögn sem þeir kröfðust í málinu.

Að loknum fjögurra daga réttarhöldum komst átta manna kviðdómur að þeirri niðurstöðu í gær að Giuliani skyldi greiða mæðgunum alls 148 milljónir dala í miska- og skaðabætur. Tuttugu milljónir dala í skaðabætur vegna meiðyrða og sextán milljónir í miskabætur vegna andlegs miska á mann auk 75 milljóna í refsibætur, sem deilast á milli mæðgnanna.

Ósennilegt verður að teljast að Giuliani sé borgunarmaður fyrir bótunum en að sögn CBS eru auðæfi hans metin á um fimmtíu milljónir dala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×