Fótbolti

Pochettino enn fullur sjálfs­trausts

Siggeir Ævarsson skrifar
Mauricio Pochettino hefur ekki átt sjö dagana sæla sem þjálfari Chelsea.
Mauricio Pochettino hefur ekki átt sjö dagana sæla sem þjálfari Chelsea. EPA-EFE/PETER POWELL

Mauricio Pochettino, stjóri Chelsea, segist vera fullviss um að stjórn liðsins muni veita honum það svigrúm sem hann þarf til að snúa gengi liðsins við eftir erfiða byrjun.

Pochettino tók við stjórn liðsins í sumar en liðið situr sem stendur í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-0 tap gegn Everton um liðna helgi. Chelsea hefur aðeins unnið fimm af 16 leikjum sínum í deildinni í vetur og tapað sjö.

Honum varð tíðrætt um traust á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Sheffield United í dag.

„Ég er þannig gerður að ég treysti alltaf þar til einhver sýnir mér að ég geti ekki treyst lengur. Ég treysti. Ég veit að ég þarf að sýna fram á árangur. Ég þekki fótboltann. Ég treysti, ég virkilega treysti.“

Chelsea hefur eytt gríðarlegum fjárhæðum í leikmannakaup frá því að nýir eigendur komu til sögunnar í fyrra. Alls hefur liðið eitt einum milljarða punda, þar af 430 milljónum síðan að Pochettino tók við.

Hann sagði að markmiðið væri skýrt en bað fólk að sýna þolinmæði.

„Verkefnið er skýrt. Þau skilaboð sem við höfum fengið frá upphafi er að treysta á þá vinnu sem við erum að vinna. Auðvitað geturðu eytt peningum. Ef þú vilt kaupa hús þá kaupirðu hús. En ef þú vilt byggja hús þarftu að taka einhverja áhættu. Við þurfum meiri tíma.“

Chelsea tekur eins og áður sagði á móti Sheffield United í dag og hefst leikurinn kl. 15:00




Fleiri fréttir

Sjá meira


×