Innlent

Tuttugu hlutu ríkis­borgara­rétt á síðasta þingfundinum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Alþingi er nú komið í jólafrí. 
Alþingi er nú komið í jólafrí.  Vísir/Vilhelm

Alþingi veitti tuttugu manns ríkisborgararétt í dag, á síðasta þingfundi fyrir jól. Flestir þeirra koma frá Íran. Fimmtíu greiddu atkvæði með frumvarpinu og enginn gegn því. 

Þetta kemur fram í þingskjölum síðasta þingfundarins, sem lauk á sjöunda tímanum í kvöld. Þar segir að allsherjar- og menntamálanefnd hafi borist 127 umsóknir um ríkisborgararétt á haustþingi 154. löggjafarþings Alþingis. Nefndin lagði til að umsækjendum á 18 umsóknum verði veittur ríkisborgararéttur að þessu sinni auk tveggja barna umsækjenda.

Alþingi samþykkti frumvarpið með fimmtíu atkvæðum. Ellefu voru fjarstaddir og tveir greiddu ekki atkvæði. 

Flestir þeirra sem hlutu ríkisborgararétt voru frá Íran, eða sjö manns. Þá voru fjórir frá Afganistan, tveir frá Bandaríkjunum og Kósóvó og einn frá Palestínu, Túnis, Írak, Filippseyjum og Úkraínu. 

Sá elsti sem hlaut ríkisborgararétt er fæddur 1974 og sá yngsti er fæddur 2020. Meðalaldur þeirra sem hlutu ríkisborgararétt er 31 ár. 

Körfuboltakona í hópnum

Í hópi þeirra tuttugu sem hlutu ríkisborgararétt er hin þrítuga Danielle Rodriguez, sem spilar körfubolta með Grindavík í Subway-deild kvenna. Ríkisborgararéttur Danielle þýðir að hún er nú gjaldgeng með íslenska landsliðinu. 

Vorið 2020 braut Dani blað í íslenskri körfuboltasögu, þegar tilkynnt var að hún yrði annar af aðstoðarþjálfurum Arnars Guðjónssonar hjá meistaraflokki karla í Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×