Fótbolti

Leikur Bour­­nemouth og Luton lík­lega spilaður aftur frá byrjun

Siggeir Ævarsson skrifar
Leikmenn ganga af velli eftir atvikið í dag.
Leikmenn ganga af velli eftir atvikið í dag. Vísir/Getty

Leikur Bournemouth og Luton, sem blásinn var af á 65. mínútu í gær, verður að öllum líkindum endurtekinn frá byrjun um leið og færi gefst.

Tom Lockyer, leikmaður og fyrirliði Luton Town, hneig niður á vellinum í gær á 65. mínútu og var leikurinn flautaður af af dómara leiksins í kjölfarið 20 mínútum síðar enda ljóst að leikmenn beggja liða voru ekki í andlegu ástandi til að halda leik áfram.

Staðan í leiknum var 1-1 þegar hann var blásinn af en samkvæmt reglum ensku deildarinnar má spila hann upp á nýtt frá grunni. Í þeim segir að ef leikur er blásinn af vegna aðstæðna sem hvorugt lið hefur stjórn á skuli leikurinn spilaður aftur á dagsetningu sem liðin koma sér saman um. Ef slíkt samkomulag næst ekki getur deildin úthlutað nýjum leikdegi.

Reglurnar bjóða upp á að leikurinn verði spilaður frá 65. mínútu en liðin þurfa að koma sér saman um fyrirkomulagið, annars mun knattspyrnusambandið stíga inn í. Líklegast þykir að bæði lið samþykki að spila leikinn aftur í heild sinni.

Forráðamenn Luton gáfu út yfirlýsingu eftir leik þar sem fram kom að Lockyer hefði verið með meðvitund þegar hann var fluttur af vellinum og á sjúkrahús og líðan hans sé stöðug. Ekkert liggur þó fyrir um hvenær eða hvort hann snúi aftur á völlinn, en þetta var í annað sinn á árinu sem Lockyer hnígur niður í leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×