Enski boltinn

Keane: „Liverpool hefur unnið deildina einu sinni á síðustu þrjá­tíu árum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roy Keane liggur sjaldnast á skoðunum sínum.
Roy Keane liggur sjaldnast á skoðunum sínum. getty/Visionhaus

Roy Keane sakaði Virgil van Dijk, fyrirliða Liverpool, um hroka og vanvirðingu í garð Manchester United eftir leik liðanna á Anfield í gær.

Leikurinn endaði með markalausu jafntefli. Eftir hann gagnrýndi Van Dijk United fyrir varfærinn leikstíl. Hann sagði að aðeins annað liðið hafi reynt að vinna leikinn og Liverpool hefði verið betri á öllum sviðum.

Keane var ekki sáttur við ummæli Van Dijks og lét hann heyra það á Sky Sports eftir leikinn.

„Það er mjög hrokafullt hjá Van Dijk að vanvirða United svona. Kannski kom hrokinn í bakið á þeim. Hann sagði að aðeins annað liðið hafi reynt að spila. United er í vandræðum. Stundum þarftu áminningu,“ sagði Keane.

„Þetta er hroki. Þú þarft að mæta og gera þetta. Það er það sem frábær lið gera. Liverpool hefur unnið einn deildina einu sinni á síðustu þrjátíu árum. Við spiluðum oft við Liverpool þegar þeir voru í vandræðum. Þú finnur ólíkar leiðir til að vinna fótboltaleik.“

Keane hélt áfram og sagði að Liverpool gæti sjálfum sér um kennt að hafa ekki unnið leikinn.

„United átti eitt eða tvö tækifæri. Þeir voru undir pressu, lágu aftarlega og spiluðu á þeim styrkleikum sem þeir hafa núna. Það er hrokafullt þegar þú segist vera vonsvikinn með jafntefli. Mikilvægasta tölfræðin eru lokatölurnar,“ sagði Keane.

„Liverpool átti færi en nýtti þau ekki. Það er þeim að kenna. Það hefur ekkert með það hvernig Manchester United spilaði að gera.“

Liverpool er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, stigi á eftir toppliði Arsenal. United er í 7. sætinu með 28 stig.


Tengdar fréttir

Ten Hag: Við áttum tvö bestu færin

Erik Ten Hag var stoltur af frammistöðu síns liðs í jafnteflinu gegn Liverpool í dag. hann sagði að hans menn hefðu getað ógnað liði Liverpool enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×