„Sú lýsing sem hefur komið fram, og hún bara stendur, er að þetta er verulegt gos. Það er fjögurra kílómetra löng sprunga sem nær svona frá Sundhnúk og vel norður fyrir Stóra-Skógfell,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, að loknum stöðufundi vísindamanna og viðbragðsaðila í húsakynnum Almannavarna í Skógarhlíð nú í nótt.
Kvikurennslið sé mikið miðað við fyrri gos á svæðinu. Gróflega metið sé það nokkur hundruð rúmmetrar á sekúndu.
„En það er sjálfsagt byrjað að draga úr því nú þegar. Hraunið rennur meira til austurs en til vesturs, sem er heppilegt. Það er ekki hraunrennsli í átt til Grindavíkur og það er töluverður spotti áður en þetta myndi ná niður að þessum nýju varnargörðum við Svartsengi og það svæði. Þannig að staðsetningin er sú skásta sem hægt er að fá miðað við það að þetta er virkt svæði.“
Fljúga aftur yfir klukkan fjögur
Reikna megi með því að dragi úr hraunflæðinu, þó ómögulegt sé að segja hversu stórt gosið reynist þegar upp er staðið.
„Það gæti staðið í einhvern tíma, en það myndi þá væntanlega draga töluvert úr hraunrennslinu mjög hratt eins og gerist eftir kröftugt upphaf svona gosa. Það er algengast.“
Magnús Tumi mun ásamt fleiri vísindamönnum fara í vísindaflug með þyrlu Landhelgisgæslunnar klukkan fjögur í nótt.
„Við förum aftur með þyrlunni og tökum þá stöðuna aftur og berum saman við það sem við sáum um miðnætti,“ segir Magnús Tumi.