Inga Marín, íbúi í Grindavík, segir það hafa verið mikið áfall þegar eldgosið hófst í gærkvöldi. „Maður er náttúrulega bara í sjokki en á sama tíma er þetta smá léttir að það skuli vera byrjað að gjósa,“ segir Inga og bætir við að gosinu fylgi miklar tilfinningar.
Fæstir hafi ætlað að halda jól í Grindavík
Fjölskyldan er á leið til Kanaríeyja á morgun til að halda jól og voru því ekki með væntingar um að halda jól heima í Grindavík líkt og sumir. „Ég held að fæstir hafi verið það, allavega ekki barnafólk. Mér skilst á flestum að þeir hafi ætlað að halda jólin þar sem þeir eru,“ segir Inga.
Inga og fjölskylda hennar fréttu af eldgosinu á Facebook í gærkvöldi og segir hún fréttaflutning ekki hafa verið góðan sökum þess hve seint upplýsingar bárust. „RÚV var meira að segja með Silfur Egils í gangi, slökkti ekki á því. Það eru mjög margir ósáttir við það.“ Inga segir upplýsingar ekki hafa borist nægilega hratt miðað við allt sem á undan hafi gengið.
Fóru með verðmæti aftur heim í gær
Þá hafi fjölskyldan farið til baka með verðmæti, meðal annars sérútbúinn jeppa, til Grindavíkur síðdegis í gær vegna yfirlýsinga lögreglustjórans á Suðurnesjum upp úr hádegi í gær um að líklegt væri að Grindvíkingar gætu haldið jól í bænum. „Það eru mjög mikil verðmæti í þessu, bara bíllinn er um tíu milljónir,“ segir Inga.
Fjölskyldan hafi talið skynsamlegra að geyma vinnutengd verkfæri og jeppann inni, í Grindavík, í stað þess að geyma þetta í bílnum úti í Reykjavík yfir jólin. „Við erum í áfalli og við erum ekkert búin að sofa í nótt,“ segir hún.
Þrátt fyrir allt eru Inga og fjölskylda bjartsýn og hlakka til að flytja aftur heim til Grindavíkur. „Grindvíkingar eru svo samheldið fólk og þetta þjappar okkur enn meira saman,“ segir Inga og bætir við: „Þessi bær var sterkur og samheldinn en hann er miklu sterkari núna.“