Fótbolti

Spennan magnaðist í riðlakeppninni eftir úr­slit kvöldsins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Glódís Perla spilaði allan leikinn í 1-0 tapi gegn Ajax.
Glódís Perla spilaði allan leikinn í 1-0 tapi gegn Ajax. Catherine Steenkeste/Getty Images

Enn ríkir mikil spenna yfir C-riðli Meistaradeildar kvenna í fótbolta eftir að bæði Bayern Munchen og Roma mistókst að tryggja sig áfram í átta liða úrslitin í kvöld. 

Fyrir leiki kvöldsins hefðu Bayern Munchen og Roma getað tryggt sig áfram í átta liða úrslit með því að sigra leiki sína á útivelli gegn Ajax og PSG. Hvorugu liði tókst að sækja sigur og öll lið geta því enn komist áfram. 

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í Bayern Munchen töpuðu leik sínum gegn Ajax með einu marki gegn engu. Glódís var í dag valin 42. besti leikmaður heims á síðasta tímabili af vefsíðunni GOAL. Hún stóð sem oftast áður í hjarta varnarinnar hjá Bayern en kom engum vörnum við Romee Leuchter skoraði rétt fyrir hálfleikslok eftir góðan undirbúning Nadine Noordam. 

Þetta var þeirra fyrsta tap í Meistaradeildinni á tímabilinu. 

Hinum megin urðu mörkin fleiri þegar PSG vann annan leik sinn í röð gegn Roma. Fyrri leikur liðanna í Parísarborg í síðustu viku endaði með 1-2 sigri PSG. Rómverjar máttu svo þola slæmt tap á heimavelli í kvöld. Gestirnir komust þremur mörkum yfir en Manuela Giugliano minnkaði muninn á lokamínútunum með marki beint úr aukaspyrnu, lokatölur 1-3. 

Staðan í C-riðli eftir úrslit kvöldsins: 

Öll lið eru með markatöluna 0.

1. Ajax – 7 stig  

2. PSG – 6 stig

3. Bayern – 5 stig

4. Roma – 4 stig

Öll lið eiga því enn möguleika á að komast áfram í átta liða úrslit keppninnar. Glódís og félagar í Bayern heimsækja næst Roma og taka svo á móti PSG í lokaumferðinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×