Erlent

Látinn laus eftir 48 ár í fangelsi fyrir morð sem hann framdi ekki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Glynn Simmons varði 48 árum í fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki.
Glynn Simmons varði 48 árum í fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki.

Dómstóll í Oklahoma hefur komist að þeirri niðurstöðu að 70 ára gamall maður, Glynn Simmons, hafi ekki verið sekur um morð sem hann var dæmdur fyrir.

Morðið var framið árið 1974 og Simmons hefur setið í fangelsi í 48 ár.

Hann nýtur þess vafasama heiðurs að vera sá einstaklingur sem hefur setið lengst í fangelsi eftir að hafa verið ranglega dæmdur og síðan hreinsaður af sök.

Amy Palumbo, dómarinn í málinu, sagði það niðurstöðu sína að sönnunargögn sýndu að þeir glæpir sem Simmons hefði verið dæmdur fyrir hefðu verið framdir af öðrum en honum.

Þegar úrskurður dómarans lá fyrir sagði Simmons að mál hans væri til marks um að það borgaði sig alltaf að berjast og gefast ekki upp. „Ekki láta segja þér að þetta geti ekki gerst, af því að það getur það,“ sagði hann um langþráðan draum sinn að verða frjáls.

Simmons var dæmdur fyrir að myrða Carolyn Sue Rogers þegar rán var framið í áfengisverslun í einu úthverfa Oklahoma. Simmons var þá 22 ára gamall. Hann og meðákærður, Don Roberts, voru dæmdir til dauða árið 1975.

Dómarnir voru síðar mildaðir en Simmons hélt því ávallt fram að hann væri saklaus og hefði verið heima hjá sér í Louisiana þegar morðið var framið. Dómurinn yfir honum var ógiltur í júlí síðastliðnum, eftir að dómari komst að þeirri niðurstöðu að saksóknarar hefðu ekki látið verjendum í hendur öll gögn í málinu.

Meðal þeirra var sú staðreynd að vitni hafði bent á aðra.

Roberts var veitt reynslulausn árið 2008.

Simmons er að glíma við krabbamein í lifur. Hann á rétt á allt að 175 þúsund dölum í bætur vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×