Erlent

Brenndu kross og hótuðu ná­grönnum sínum

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn FBI eru með parið til rannsóknar fyrir hatursglæp.
Starfsmenn FBI eru með parið til rannsóknar fyrir hatursglæp. AP/Cliff Owen

Starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) eru með par frá Suður-Karólínu til rannsóknar eftir að þau kveiktu í krossi á lóð þeirra í síðasta mánuði. Hinu megin við götuna býr eldra þeldökkt fólk og beindist brennan að þeim en hjónin birtu myndband af brennunni og segjast ítrekað yfir orðið fyrir hótunum frá parinu sem hefur verið handtekið.

Þau Worden Butler (28) og Alexis Hartnett (27) voru handtekin þann 30. nóvember en eru nú til rannsóknar, samkvæmt AP fréttaveitunni, vegna gruns um að þau hafi framið svokallaðan hatursglæp, sem er alríkisbrot.

Suður-Karólína hefur engin lög um hatursglæpi.

Sandra Day O‘Connor, fyrrverandi hæstaréttardómari, skrifaði árið 2003 að krossabrennur væru öflugt haturstákn í Bandaríkjunum sem hefði skírar og fastar rætur í sögu Ku Klux Klan. Þetta skrifaði dómarinn í úrskurð hæstaréttar um að fyrsta ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna, ákvæði um málfrelsi, leyfði bönn við krossabrennum en þó eingöngu þegar slíkum brennum er ætlað að ógna fólki.

Starfsmenn FBI framkvæmdu húsleit hjá parinu í gær.

24. nóvember fóru bæði Butler og Hartnett inn á lóð hjónanna og öskruðu rasísk orð að þeim. Degi síðar kveiktu þau í krossinum.

Héraðsmiðillinn WPDE hefur komið höndum yfir skýrslu lögreglunnar frá því parið var handtekið en þar kemur fram að þau hafi kallað rasísk níðorð að nágrönnum sínum, hótað þeim ofbeldi og sagst hafa banað svartri konu á árum áður.

Þá birti Butler mynd af póstkassa hjónanna þeldökku á Facebook, með heimilisfangi þeirra, og sagðist ætla að kalla saman „her djöfulsins“. Hann sagði að honum væri sama þau hann færist með sama skipi og þau en hann ætlaði sér að refsa þeim.

Bæði Butler og Hartnett ganga laus gegn tryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×