Viðskipti innlent

Verð­bólgan minnkar um 0,3 prósentu­stig

Árni Sæberg skrifar
Hagstofan gefur út helstu hagtölur.
Hagstofan gefur út helstu hagtölur. Vísir/Hanna Andrésdóttir

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í desember 2023, er 608,3 stig og hækkar um 0,41 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 497,9 stig og hækkar um 0,26 prósent frá nóvember 2023. Ársverðbólgan minnkar þó um 0,3 prósentustig milli mánaða.

Þetta segir í tilkynningu frá Hagstofunni. Þar segir að kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, reiknuð húsaleiga, hafi hækkað um 0,8 prósent og áhrif hennar á vísitöluna verið 0,17 prósent.

Síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 7,7 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 6,7 prósent.

Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs árið 2023 hafi verið 592,8 stig, 8,8 prósent hærra en meðalvísitala ársins 2022. Samsvarandi breyting hafi verið 8,3 prósent árið 2022 og 4,4 prósent 2021.

Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs án húsnæðis árið 2023 hafi verið 489,3 stig, 7,8 prósent hærra en meðalvísitala ársins 2022. Samsvarandi breyting hafi verið 6,1 prósent árið 2022 og 3,8 prósent 2021.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í desember 2023, sem er 608,3 stig, gildi til verðtryggingar í febrúar 2024.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×