Sport

Inn­lendur íþróttannáll 2023: Ofur­hetja, silfurmaður og enda­lausa biðin á enda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, bendir á Gísla Þorgeir Kristjánsson eftir að íslenski landsliðsmaðurinn spilaði í gegnum slæm axlarmeiðsli og leiddi þýska liðið til sigurs í Meistaradeildinni. Eitt mesta afrek í íslenskri íþróttasögu.
Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, bendir á Gísla Þorgeir Kristjánsson eftir að íslenski landsliðsmaðurinn spilaði í gegnum slæm axlarmeiðsli og leiddi þýska liðið til sigurs í Meistaradeildinni. Eitt mesta afrek í íslenskri íþróttasögu. Getty/Frederic Scheidemann/

Íslenskt íþróttafólk var í sviðsljósinu á árinu 2023 og mörg þeirra náðu frábærum árangri á eftirminnilegu íþróttaári. Það er því af nægu að taka þegar við horfum aftur á bestu afrek ársins hjá okkar fólki.

Vísir hefur tekið saman nokkrar af þessum stærstu stundum íslenska íþróttafólksins á árinu 2023.

Íslensku boltalandsliðin hafa kannski oft gert betri hluti en á þessu ári en það munaði þó ekki miklu að þau upplifðu ævintýri.

Körfuboltalandsliðið hjá körlunum var þannig bara einu skoti frá því að tryggja sig inn á sitt fyrsta heimsmeistaramót og karlalandsliðið í fótbolta fær tækifæri til að komast á EM í umspilsleikjum í mars.

Kvennalandsliðið í handbolta fór á sitt fyrsta stórmót í ellefu ár og endaði með að koma með Forsetabikarinn heim eftir að hafa verið aðeins einu marki frá milliriðlinum. Kvennalandsliðið í fótbolta endaði erfitt ár með sögulegum sigri á Dönum á danskri grundu.

Karlalið Breiðabliks skrifaði nýjan kafla í sögu íslenskrar knattspyrnu með því að komast alla leið í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar en fórnarkostnaður var kannski sá að árangur liðsins heima fyrir var ekki upp á marga fiska.

Víkingar áttu magnað ár þar sem þeir unnu tvöfalt hjá körlunum og kvennaliðið vann einnig alla þrjá titla í boði þar á meðal urðu Víkingskonur fyrsta b-deildarliðið til að vinna bikarinn hjá konunum. Valskonur urðu Íslandsmeistarar þriðja árið í röð.

Eyjamenn kvöddu þjálfarann sinn Erling Richardsson með Íslandsmeistaratitli í handboltanum en Eyjamenn náðu þó ekki að vinna titilinn hjá báðum kynjum því meiðslahrjáðir deildar- og bikarmeistarar kvennaliðs ÍBV sprungu á limminu í lokin og Valskonur urðu Íslandsmeistarar.

Valur varð líka Íslandsmeistari kvenna í körfubolta og náðu því öll kvennalið félagsins, í fótbolta, handbolta og körfubolta að vinna þann stóra og jafna um leið sama afrek frá árinu 2019.

Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta vannst annað árið í röð eftir oddaleik á milli Vals og Tindastóls á Hlíðarenda en að þessu sinni höfðu Stólarnir betur. Tindastóll komst fyrst upp í úrvalsdeildina 1988 og Stólarnir höfðu margt oft komist í lokaúrslitin en aldrei unnið þann stóra. Nú náðu þeir loksins að enda eina lengstu bið sögunnar og þar munaði miklu að fá sigurvegarann Pavel Ermolinskij í þjálfarastólinn í janúar. Pavel talaði trúna í sína menn og breytti strögglandi liði í besta lið landsins.

Íþróttafólkið okkar náði mörgum hápunktum á árinu þar sem þau héldu um leið nafni þjóðar sinnar hátt á lofti.

Við eignuðumst íslenska ofurhetju í úrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta þegar Gísli Þorgeir Kristjánsson fór úr axlarlið í undanúrslitunum en mætti daginn eftir og leiddi sína menn til sigurs í úrslitaleiknum Gísli var valinn besti leikmaðurinn eftir að hafa boðið upp á hetjulega frammistöðu á stærsta sviðinu.

Anton Sveinn McKee fékk langþráða medalíu í um hálsinn á Evrópumótinu í 25 metra laug í desember þegar hann vann silfur í 200 metra bringusundi. Gleðin leyndi sér ekki enda stór stund fyrir Anton og íslenskt sund. Fyrstu íslensku verðlaunin á stórmóti í sundi í sjö ár og fyrstu verðlaun karlsundamanns síðan 2006.

Sterkar stelpur minntu líka á sig á árinu. Kristín Þórhallsdóttir vann til silfurverðlauna á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, Sóley Margrét Jónsdóttir varð Evrópumeistari í kraftlyftingum með búnaði og fékk silfur á HM og Eygló Fanndal Sturludóttir varð á árinu fyrsta íslenska konan til að snara hundrað kílóum og margbætti í framhaldinu Íslandsmetin sín. Eygló er í harðri baráttu um keppnisrétt á Ólympíuleikunum í París næsta sumar.

Andrea Kolbeinsdóttir átti einn ótrúlegasta dag í manna minnum í mars þegar hún varð Íslandsmeistari í skíðagöngu um morguninn og setti síðan nýtt Íslandsmet í í 5000 metra hlaupi seinna sama dag.

Hér fyrir neðan má nokkra íslenska hápunkta frá íþróttaárinu 2023.

- 18. maí - Tindastóll kom fyrst upp í úrvalsdeild haustið 1988 og Króksarar höfðu margoft komist alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn, þar á meðal í fyrra. Biðin endalausa virtist aldrei ætla að enda. Þeir réðu hins vegar sigurvegarann Pavel Ermolinskij sem þjálfara í janúar og hann braut múrinn mikla og stýrði Tindastóls til síns fyrsta Íslandsmeistaratitils í sögunni. Pavel hafði orðið átta sinnum Íslandsmeistari sem leikmaður þar af árið áður með Valsmönnum. Tindastóll tryggði sér titilinn með sigri í oddaleik fyrir framan troðfullan Hlíðarenda.Vísir/Hulda Margrét
- 11. ágúst - Kvennalið Víkings varð bikarmeistari eftir sannfærandi 3-1 sigur á Breiðabliki í bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli. Þetta er fyrsti stóri titill kvennaliðs Víkings í knattspyrnu og í fyrsta sinn sem lið úr b-deildinni verður bikarmeistari. Víkingsstelpurnar slógu þrjú Bestu deildarlið út á leið sinni að bikarnum en þær tryggðu sér líka sæti í Brstu deildinni á næsta ári.Vísir/Hulda Margrét
- 25. mars - Andrea Kolbeinsdóttir átti ótrúlega viðburðaríkan laugardag í mars. Hún byrjaði á að verða Íslandsmeistari í 5 km skíðagöngu og sló svo Íslandsmetið í 5000 metra hlaupi innanhúss seinna um daginn. Gamla Íslandsmetið í 5000 metra hlaupi innanhúss var 17:25,35 mínútur og frá árinu 1994. Metið var því eldra en Andrea sjálf en hún stórbætti metið með því að hlaupa á 16:46,18 mínútum.Vísir/Hulda Margrét
- 9. desember - Anton Sveinn McKee vann til silfurverðlauna í 200 metra bringusundi á Evrópumótinu í 25 metra laug. Hann synti á sínum besta tíma í ár, 2:02,74, og var einungis 0,33 sekúndum frá sigurvegaranum Caspar Corbeau frá Hollandi. Anton Sveinn sést hér með móður sinni Helgu Margréti Sveinsdóttur og með silfurverðlaunin frá Evrópumeistaramótinu um hálsinn.Vísir/Vilhelm
-18. júní - Gísli Þorgeir Kristjánsson bauð upp á ofurhetju frammistöðu þegar hann leiddi Magdeburg til sigurs í Meistaradeildinni daginn eftir að hafa meiðst illa á öxl í undanúrslitaleiknum. Hann skoraði sex mörk úr aðeins átta skotum í úrslitaleiknum og var kosinn verðmætasti leikmaður úrslitahelgarinnar. Hér fagnar hann með stuðningsmönnum liðsins í miðbæ Magdeburg.Getty
- 16. september - Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, varð aðeins annar þjálfarinn í sögunni til að vinna fjóra bikarmeistaratitla í röð og sá fyrsti sem gerir það með sama félaginu. Hann leiddi Víkinga til sigurs í deild og bikar og hefur unnið sex stóra titla í Víkinni frá og með árinu 2019.Vísir/Hulda Margrét
- 28. maí - Glódís Perla Viggósdóttir skoraði eitt marka Bayern München þegar liðið tryggði sér þýska meistaratitilinn með stórsigri. Þetta var hennar fyrsti stóri titill með þýska stórliðinu. Glódís tók síðan við fyrirliðabandi Bayern um sumarið en hún er líka fyrirliði íslenska landsliðsins. Getty
- 31. ágúst - Breiðablik vann 1-0 sigur á Struga í seinni leik liðanna og tryggði sér með því sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Blikar skrifuðu þar með nýjan kafla í sögu íslenska fótboltans  því þeir urðu um leið fyrsta íslenska karlaliðið sem kemst í riðlakeppni í Evrópukeppni.Vísir/Hulda Margrét
5. mars - Snorri Eyþór Ein­ars­son náði fimmtánda sæti í sinni bestu grein, 50 kíló­metra skíðagöngu, á heims­meist­ara­mót­inu í skíðagöngu í Planica í Slóven­íu og náði þar með besta ár­angri sem Íslend­ing­ur hef­ur náð í grein­inni á HM. Snorri kom í mark á tím­an­um 2:04:08,7 klst. og var þannig 2:38,5 mín­út­um á eft­ir Norðmann­in­um Pål Gol­berg, sem varð fyrst­ur á tím­an­um 2:01:30,2.Getty
20. maí - Valskonur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í Olís deild kvenna í handbolta með 25-23 marka sigri í þriðja úrslitaleiknum í Vestmannaeyjum. Valsliðið tapaði fyrsta leik í úrslitakeppninni en vann síðan síðustu sex. Ágúst Þór Jóhannsson var með tvær dætur sínar í liðinu eða þær Ásdísi Þóru og Lilju Ágústsdætur.Vísir/Anton Brink
- 3. júní - Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar hennar í Wolfsburg komust alla leið í úrslitaleikinn í Meistaradeildinni en urðu að sætta sig við tap á móti FC Barcelona. Sveindís var í lykilhlutverki hjá þýska liðinu en hún er aðeins þriðja íslenska konan til að spila í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.Getty
- 13. september - Valskonur urðu Íslandsmeistarar þriðja árið í röð og að þessu sinni sófameistarar eftir tap Breiðabliks. Valsliðið vann titilinn mjög sannfærandi á endanum og hér má sjá þær lyfta Íslandsmeistaraskildinum.  Valur varð Íslandsmeistari á árinu í fótbolta, handbolta og körfubolta hjá konunum.Vísir/Hulda Margrét
- 31. maí - Eyjamenn urðu Íslandsmeistarar í Olís deild karla í handbolta eftir 25-23 sigur á Haukum í oddaleik í Vestmannaeyjum. Rúnar Kárason skoraði tíu mörk í oddaleiknum og alls 47 mörk í úrslitaeinvíginu en með því sló hann markamet Róbert Julian Duranona frá 1996. Hér fagnar Rúnar í leikslok.Vísir/Vilhelm
- 13. desember - Íslenska kvennalandsliðið tók þátt í sínu fyrsta stórsmóti í ellefu ár og kom heim með bikar. Stelpurnar unnu Kongó í úrslitaleiknum um Forsetabikarinn en það var um leið úrslitaleikurinn um 25. sætið á mótinu.HSÍ
- 26. nóvember - Thelma Aðalsteinsdóttir varð Norður-Evrópumeistari á tvíslá og tryggði sér sigurinn með nýju afstökki sem innihélt tvöfalt heljarstökk með beinum líkama. Thelma varð Íslandsmeistari í fjölþraut og á Heimsmeistaramótinu endaði hún með 49.099 stig og var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikana 2024.FSÍ
- 28. apríl - Valskonur komu mörgum á óvart með því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn eftir að hafa slegið út bikarmeistara Hauka og deildarmeistara Keflavíkur á leið sinni að titlinum. Valur vann Keflavík 3-1 ó úrslitaeinvíginu og hér sjást nokkrar af Valsstelpunum fagna þriðja Íslandsmeistaratitli sínum á síðustu fimm árum.Vísir/Hulda Margrét
- 1. október - Albert Guðmundsson bætti met langafa síns og varð fyrstur til að skora þrjú mörk á einu tímabili í Seríu A. Hann er nú kominn með sex mörk í A-deildinni og skoraði einnig  átta mörk í B-deildinni á árinu þegar Genoa komst upp. Albert spilaði ekkert með landsliðinu á árinu vegna þess að hann er með kæru á sér fyrir kynferðisbrot sem hann kveðst saklaus af. Reglur KSÍ eru þannig að ef leikmaður liggur undir grun um lögbrot þá komi hann ekki til greina í landsliðið.Getty/Simone Arveda
- 2. júlí 2023 - Jóhanna Margrét Snorradóttir varð tvöfaldur heimsmeistari á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi í sumar en hún vann bæði gull í tölti og í samanlögðum fjórgangsgreinum á hestinum Bárði frá Melabergi. Þá varð Jóhanna Margrét einnig Íslandmeistari í tölti á árinu og endaði þar með 33 ára einokun karlpeningings frá þessum eftirsótta titli.@johannamargretsnorra



Fleiri fréttir

Sjá meira


×