Við sjáum nýjar myndir af sprungunni í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fjöllum um skyndileg lok á þessu kröftuga gosi. Þá verður rætt við lögreglustjórann á Suðurnesjum um þýðingu þessa fyrir Grindvíkinga sem vilja komast aftur heim. Kristján Már Unnarsson mætir einnig í settið og rifjar upp umfjöllun sína um Kröfluelda en hræringarnar á Reykjanesi minna talsvert á þá.
Hópur heimilislausra manna mótmælti lokun gistiskýlanna í Ráðhúsinu í dag. Þeir vilja ekki þurfa að yfirgefa gistiskýlin í kuldanum og sérstaklega ekki um hátíðirnar. Við heyrum í þeim og borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks sem segja að hægt að gera meira. Þá ræðum við málið við formann velferðarráðs Reykjavíkurborgar í beinni.
Við sjáum einnig myndir frá vettvangi mannskæðar skotárásar í Prag og kynnum okkur ný Sandeyjargöng Færeyinga sem voru opnuð í dag – en þau munu vera mikil samgöngubót.
Að loknum kvöldfréttum gerir Elísabet Inga Sigurðardóttir upp helstu deilumál ársins í annál fréttastofunnar.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan 18:30.