Í fréttum Stöðvar 2 voru Kröflugosin rifjuð upp. Þau stóðu yfir á árunum 1975 til 1984 og urðu níu talsins á níu árum. Á sama tímabili er talið að allt fimmtán kvikuinnskot hafi orðið sem ekki enduðu með eldgosi.

Fyrstu fjögur eldgosin reyndust mjög skammvinn og smá. Það fyrsta varð rétt fyrir jólin árið 1975 og stóð yfir í aðeins fáar klukkustundir. Gossprungan opnaðist um þrjá kílómetra frá Kröfluvirkjun, sem þá var í smíðum.
Fyrsta stóra Kröflugosið varð sumarið 1980 og stóð í átta daga. Síðasta gosið haustið 1984 reyndist jafnframt það lengsta og entist í tvær vikur.

Eldgosin urðu öll á sama svæði milli Leirhnjúks og Gjástykkis í fjöllunum norðan við Mývatnssveit. Þær gossprungur sem opnuðust næst Reykjahlíð voru í um níu kílómetra fjarlægð frá byggðinni. Aldrei kom þó til þess að Mývetningum væri skipað að rýma heimili sín.
Kröflugosin áttu það sammerkt að þau voru öflug í byrjun en mjög fljótlega dró úr krafti þeirra. Á myndum Ríkissjónvarpsins, sem Stöð 2 sýndi, sést þó vel að kvikustrókar voru háir og hraunrennsli mikið, þótt gosin væru talin tiltölulega lítil.
Nánar í frétt Stöðvar 2:
Stöð 2 gerði þátt um Kröfluelda árið 2015 í tilefni 40 ára afmælis atburðanna. Þáttinn má sjá hér: