Innlent

Fimm út­köll vegna líkams­á­rása og slags­mála

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti fjölbreyttum útköllum í gærkvöldi og nótt.
Lögregla sinnti fjölbreyttum útköllum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt og bárust meðal annars fimm tilkynningar vegna líkamsárása og slagsmála.

Einn var vistaður í fangageymslu vegna líkamsárásar og þjófnaðar í verslun í póstnúmerinu 203 og þá brutust út slagsmál í verslunarmiðstöð í póstnúmerinu 103. Þar var einnig óskað aðstoðar vegna þjófnaðar úr verslun en málið afgreitt með skýrslutöku á vettvangi.

Lögreglu bárust einnig óskir um aðstoð vegna innbrots í geymslur í póstnúmerinu 105 og vegna eignaspjalla í miðborginni. 

Þrír menn voru einnig handtekir í miðbænum grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna. Þeir freistuðu þess að hlaupa undan lögreglu en höfðu ekki úthald til þess. Voru þeir yfirbugaðir og vistaðir í fangageymslu. Hald var lagt á ætluð fíkniefni og fjármuni.

Einn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og annar sektaður fyrir að aka bifreið sviptur ökuréttindum. Hefur sá ítrekað gerst sekur um að aka án ökuréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×