Enski boltinn

Ekki allir á­nægðir eftir kaup Ratcliffe

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gary Neville var ósáttur við tímasetningu tilkynningarinnar.
Gary Neville var ósáttur við tímasetningu tilkynningarinnar. James Gill - Danehouse/Getty Images

Stuðningsmannahópur Manchester United gaf frá sér yfirlýsingu þar sem varpað var ljósi á áhyggjur og efasemdir eftir minnihlutakaup og rekstraryfirtöku Jim Ratcliffe. Viðskiptin höfðu lengi legið fyrir en voru staðfest klukkan 16:00 í gær, aðfangadag. 

Gary Neville, fyrrum leikmaður liðsins og sérfræðingur Sky Sports, var afar óánægður með tímasetningu tilkynningarinnar og sagði félagið vera sjálfu sér til skammar. Hann óskaði Ratcliffe þó alls hins besta og vonar eins og aðrir stuðningsmenn liðsins að hann komi félaginu á réttan kjöl. 

„Manchester United hefur verið sér til skammar árið 2023, frá upphafi til enda. Tímasetningin á þessu er hrikaleg og ekkert vel rekið félag myndi einu sinni hugsa um að gera þetta.“

Stuðningsmannaklúbbur Manchester United gaf svo frá sér yfirlýsingu þar sem látið var í ljós blendnar tilfinningar um kaupin, þá sérstaklega í ljósi þess að Glazer fjölskyldan er ekki alveg horfin á brott og heldur ennþá stórum hlut í félaginu. Þeir segja þar að mörgum spurningum sé enn ósvarað um framtíð félagsins.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×