Innlent

Elsti Ís­lendingurinn stefnir á að verða 110 ára

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
 Þórhildur er ótrúlega hress og spræk nýorðin 106 ára.
Þórhildur er ótrúlega hress og spræk nýorðin 106 ára. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Elsti Íslendingurinn, Þórhildur Magnúsdóttir, sem er 106 ára nýtur jólanna með fjölskyldu sinni en hún á um hundrað afkomendur. Sjálf segist hún stefna á að lifa til 110 ára aldurs því þá er Gissur Páll Gissurarson búin að lofa að syngja í afmælinu hennar.

Þórhildur býr á Hrafnistuheimilinu við Sléttuveg í Reykjavík þar sem hún unir sér vel. Hún er ótrúlega spræk og hress. Hún bauð til fjölskylduveislu föstudaginn 22. desember á 106 ára afmælisdeginum sínum en hún fæddist þann dag árið 1917 í Miðhúsum í Biskupstungum. Hún segir að jólin hafi verið mjög látlaus í sinni æsku.

„Þá var nú allt af svo skornum skammti alls staðar, þannig að það var kerti og spil og kannski jólakaka og pönnukökur og svona. Það er ekki eins og núna með rjómatertur og allt mögulegt. En þetta var allt afskaplega hátíðlegt, þá voru sungnir jólasálmar og helgiblær yfir öllu,” segir Þórhildur.

Þórhildur segir allt í kringum jólin hafi gjörbreyst.

„Já, já, núna veður allt í pökkum og það gleymist líka hátíðarbragurinn, það sem við erum að halda upp á. Maður spyr börnin af hverju erum við að halda jól, þá fæ ég pakka svara þau.”

Gissur Páll Gissurarson er uppáhaldssöngvari Þórhildar enda mætti hann í 105 ára afmælið hennar í fyrra og söng uppáhaldslögin hennar.

„Ég var nú búin að lofa honum Gissuri hálfgerð að vera uppi 110 ára en ég sagðist ekki ætla að sverja það,” segir hún hlæjandi.

Og Þórhildur fékk að sjálfsögðu afmælissönginn í 106 ára afmælinu frá sínu fólki.

Þórhildur ásamt Huldu systur sinni, sem er 97 ára gömul.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×