Agnes M. Sigurðardóttir, fráfarandi biskup Íslands, lætur af embætti í vor. Biskupskjör verður haldið í mars og nú yfir jólin tilkynntu tveir prestar að þeir gæfu kost á sér í embættið, þær Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur í Háteigskirkju og prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi, og Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju.
Í biskupskjörinu í mars verður í fyrsta sinn kosið samkvæmt nýjum reglum. Fyrst getur sérhver prestur tilnefnt allt að þrjá kandídata og þeir þrír sem hljóta flestar tilnefningar fara áfram í kjörið sjálft. Solveig Lára Guðmundsdóttir fyrrverandi vígslubiskup á Hólum telur líklegt að fleiri en áðurnefndir tveir prestar verði um hituna.
„Ég geri ráð fyrir því að prestar munu tilnefna miklu fleiri heldur en þessar tvær mjög svo ágætu konur, sem eru búnar að gefa það út að þær munu taka tilnefningu, ef þær verði tilnefndar.“
Það er nefnilega ekki sjálfgefið að þeir sem tilnefndir verða taki endilega tilnefningu. Og ekki þarf heldur að gefa sérstaklega kost á sér til að vera tilnefndur. Solveig segist þó ekki hafa heyrt aðra verið orðaða við áhuga á embættinu en þær Helgu og Guðrúnu. Og sjálf hyggst Solveig ekki gefa kost á sér, hún fór á eftirlaun í fyrra.
Telur ekki ákall um breytingar
Solveig segir skiptar skoðanir á kirkjuþingi um eðli biskupsembættisins, hvort biskup eigi að vera andlegur leiðtogi eða hafa einnig vald yfir mannauðsmálum.
„En hins vegar tel ég að biskupskosningarnar komi alls ekki til með að snúast um þetta. Ég er alveg sannfærð um að biskupskosningin muni snúast um þær persónur sem verða þar tilnefndar, hvað þær hafa að segja og hvernig þær koma fram fyrir hönd kirkjunnar.“
Heldurðu að það sé ákall um breytingar fra því sem hefur verið?
„Nei, það held ég ekki. Ég held að allir séu sammála um að rödd kirkjunnar þarf að heyrast betur heldur en hún hefur verið undanfarin ár og ég held að það sé það sem við munum koma til með að sameinast um á næstu misserum.“