Fótbolti

Ekkert lið nýtt færin jafn illa og Chelsea

Siggeir Ævarsson skrifar
Nicolas Jackson er markahæsti leikmaður Chelsea það sem af er tímabilinu
Nicolas Jackson er markahæsti leikmaður Chelsea það sem af er tímabilinu Vísir/Getty

Chelsea tekur á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en bæði lið hafa verið í töluverðu basli á tímabilinu.

Lærisveinar Mauricio Pochettino í Chelsea hafa verið með eindæmum óheppnir fyrir framan mark andstæðinganna en ekkert lið í deildinni hefur brennt af jafn mörgum dauðafærum í vetur. Markatala liðsins er 29-28, eitt mark í plús.

Liðið situr sem stendur í 11. sæti og hefur aðeins náð í tvo sigra í síðustu sjö deildarleikjum. Til að bæta gráu ofan á svart hafa meiðsli lykilmanna sett strik í reikning liðsins en alls eru ellefu leikmenn á sjúkralista fyrir leikinn í kvöld.

Gengi Crystal Palace hefur svo sem ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir heldur en liðið er í 15. sæti, fjórum stigum á eftir Chelsea. Í síðustu 13 leikjum liðsins hefur liðið sótt ellefu stig af 39 mögulegum.

Bæði lið eru eflaust staðráðin í að nýta leikinn í kvöld til að rétta úr kútnum en leikurinn hefst kl. 19:30 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×