Þetta staðfestir Fjalar Sigurðarson upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins við fréttastofu.
Í svari hans segir að Hulda Elsa sé tímabundið að aðstoða dómsmálaráðuneytið við frumvarpsgerð á sviði löggæslu og leggi þar til sína sérfræðiþekkingu.
„Um tímabundna verkefnavinnu er að ræða og hefur Hulda Elsa því ekki formlega stöðu innan ráðuneytisins.“
Hulda Elsa sagði starfi sínu lausu sem aðstoðarlögreglustjóri og sviðsstjóri ákærusviðs í vor eftir að hafa verið í leyfi eftir úttekt sálfræðistofu á ákærusviðinu. Mikil starfsmannavelta hafði verið á sviðinu í nokkurn tíma og höfðu ýmsir starfsmenn leitað í önnur störf eftir erfið samskipti við Huldu Elsu samkvæmt heimildum fréttastofu.
Hulda Elsa er reynslumikil þegar kemur að lögreglumálum hér á landi. Hún starfaði hjá ríkissaksóknara um ellefu ára skeið og var sviðsstjóri ákærusviðs lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 2016. Þá var hún staðgengill lögreglustjóra frá árinu 2017 og hefur tvisvar verið settur lögreglustjóri.