Enski boltinn

Leno lík­lega ekki refsað fyrir að hrinda boltastráknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bernd Leno í leik Bournemouth og Fulham á öðrum degi jóla.
Bernd Leno í leik Bournemouth og Fulham á öðrum degi jóla. getty/Robin Jones

Bernd Leno, markvörður Fulham, sleppur væntanlega við refsingu frá enska knattspyrnusambandinu fyrir að hrinda boltastrák í leik gegn Bournemouth á annan í jólum.

Leno var ekki refsað í leiknum sjálfum fyrir að stjaka við boltastráknum þegar hann reyndi að ná boltanum af honum til að koma honum sem fyrst í leik. Þýski markvörðurinn var kominn með gult spjald á þeim tíma í leiknum og slapp því vel.

Leno bað boltastrákinn seinna afsökunar og faðmaði hann. Stuðningsmenn Bournemouth fyrirgáfu honum hins vegar ekki og púuðu á hann það sem eftir lifði leiks.

Auk þess að sleppa við refsingu í leiknum sjálfum er líklegt að Leno verði ekki refsað fyrir athæfið af enska knattspyrnusambandinu.

Marco Silva, knattspyrnustjóri Fulham, kom Leno til varnar eftir leikinn gegn Bournemouth.

„Ég veit ekki hvort þeir fengu fyrirmæli um það eða ekki en boltastrákarnir voru alltaf að tefja leikinn,“ sagði Silva.

„Bernd vildi koma boltanum strax í leik og tók hann af boltastráknum. Hann hrinti honum ekki. Hann bað strákinn afsökunar.“

Bournemouth vann leikinn með þremur mörkum gegn engu. Fulham er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×