Fótbolti

Hent út úr ítölsku deildinni ef þau velja Ofurdeildina

Sindri Sverrisson skrifar
Juventus og Napoli mega aðeins spila í keppnum á vegum UEFA og FIFA ef þau vilja vera áfram í ítölsku A-deildinni.
Juventus og Napoli mega aðeins spila í keppnum á vegum UEFA og FIFA ef þau vilja vera áfram í ítölsku A-deildinni. EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO

Ítalska knattspyrnusambandið hefur samþykkt að ákveði eitthvert ítalskt félag að taka þátt í svokallaðri Ofurdeild þá fái það ekki lengur að spila í ítölsku A-deildinni.

Frá þessu greinir meðal annars hinn virti ítalski blaðamaður Fabrizio Romano. Hann segir ítalska sambandið hafa samþykkt reglu sem segir að ítölsk lið megi aðeins taka þátt í keppnum á vegum UEFA, FIFA og ítalska sambandsins.

Ákveði eitthvert ítalskt félag að ganga til liðs við Ofurdeildina þá verði það einfaldlega ekki með í Seríu A á næstu leiktíð.

Evrópudómstóllinn úrskurðaði um það skömmu fyrir jól að það væri ólöglegt af FIFA og UEFA að banna félögum að taka þátt í Ofurdeildinni. Þar með virtist á ný opnast sá möguleiki að af stofnun Ofurdeildarinnar yrði.

Stóru félögin í Evrópu hafa hins vegar í kjölfarið, flest alla vega, keppst við að senda frá sér yfirlýsingar þess efnis að þau ætli ekki að taka þátt í Ofurdeildinni.

Ítalska knattspyrnusambandið hefur hins vegar gengið skrefinu lengra til að auka enn líkurnar á að ítölsk félög verði ekki með í neinni einkadeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×