Strembið hjá Skyttunum sem töpuðu aftur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ödegaard og félagar hafa átt betri daga.
Ödegaard og félagar hafa átt betri daga. Getty

Arsenal hafði tækifæri til að ljúka árinu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með því að fagna sigri gegn Fulham í dag og það byrjaði vel fyrir liðið er Bukayo Saka fylgdi eftir skoti Gabriels Martinelli sem féll fyrir fætur hans eftir vörslu Bernds Leno.

Það var eftir aðeins fimm mínútna leik sem Arsenal náði forystunni en tæpur hálftími var liðinn þegar frábær fyrirgjöf Skotans Tom Cairney fann mexíkóska framherjann Raúl Jiménez á teignum og átti hann í litlum vandræðum með að koma boltanum í netið af skömmu færi.

Jiménez var að spila sinn fyrsta leik eftir leikbann og augljóst á leik Fulham hversu hans var saknað í síðustu þremur deildarleikjum sem allir töpuðust sannfærandi. Í endurkomuleik hans tókst Fulham að vinna sinn fyrsta sigur síðan 10. desember en Bobby Decordova-Reid var hetja liðsins með sigurmarkinu á 59. mínútu.

Arsenal-menn reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn á síðasta hálftímanum en varð ekki erindi sem erfiði. Annað tap liðsins fyrir Lundúnaliði í röð staðreynd, eftir tap fyrir West Ham fyrir þremur dögum síðan.

Arsenal hefur aðeins fengið fjögur stig af síðustu 15 mögulegum í deildinni og er í fjórða sæti með 40 stig eftir 20 leiki. Það eru jafnmörg og Manchester City hefur í því þriðja en City hefur leikið einum leik færra. Tveimur stigum ofar eru Liverpool og Aston Villa með 42 en Liverpool hefur spilað 19 leiki gegn 20 leikjum Villa.

Tottenham vann öruggan sigur á Bournemouth á sama tíma og leikur Arsenal fór fram. Spurs eru aðeins stigi á eftir Arsenal í fimmta sæti.

Fulham er eftir sigur sinn með 24 stig í 13. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira