Hópur Palestínumanna hefur nú í nístingskulda dvalið í tjöldum í þrjá daga, með þá von í brjósti að stjórnvöld hjálpi fjölskyldum þeirra að komast út úr hryllingnum á Gasa.
„Það eina sem ég bið um er að stjórnvöld hjálpi fjölskyldum okkur út úr Gasa, það er það eina,“ segir Naji Asar, einn úr hópi Palestínumannanna.
Þeir segja að með þessu áframhaldi verði ekki lengur til neinar fjölskyldur til að sameina. Ráðherranefnd um útlendinga fundaði um stöðu fólksins í morgun. Guðmundur Ingi Guðbrandsson segir stöðuna flókna og erfiða.
„Við erum að skoða ýmsa möguleika og fylgjumst mjög vel líka með því hvað önnur ríki eru að gera, ein sog nágrannaþjóðir okkar þannig að almennt séð vil ég bara segja að við höldum því áfram að skoða hvaða möguleikar kunna að vera í stöðunni,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra.
„Ég ítreka það að nágrannalöndin okkar, þau hafa eingöngu verið að taka til sinna landa sína ríkisborgara eða fólk sem hefur dvalarleyfi og hefur búið í löndunum í einhvern tíma eða langan tíma og ef það hafa verið fjölskyldusameiningar þá hefur fólk þurft að koma sér sjálft út af svæðinu og koma sér sjálft til landsins,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.
Bergþóra Snæbjörnsdóttir, rithöfundur og baráttukona, gefur lítið fyrir tal um ómöguleika.
„Þeir hafa náttúrulega bara verið svo vikum skiptir að reyna að fá einhver svör frá ríkisstjórninni um það hvað þau ætla að gera til að koma fólkinu sínu frá Gasa. Það er búið að fá samþykkta fölskyldusameiningu en svo er ekkert gert til að koma þeim út. Hin löndin hafa verið að ná þessu þannig að það að segja að þetta sé einhver ómöguleiki, það er bara ekki rétt.“
Á degi hverjum eru gefnir út listar yfir Gasabúa sem fá með aðstoð annarra ríkja að fara í gegnum Rafah-landamærastöðina við Egyptaland. Palestínubúarnir rýna þá og stundum sjá þeir jafnvel nöfn vina sinna eins og æskuvinur eins úr hópnum sem komst til Ástralíu eftir að hafa fengið þar dvalarleyfi í lok nóvember.
„Það er ekki ómöguleiki. Það eru lönd eins og Venesúela, Albanía, Rúmenía, Mexíkó, Bandaríkin, Bretar og meira að segja eitthvað af Norðurlöndunum og ég var að sjá frétt um að Rússar væru að ná 1300 manns út þannig að það þarf að gera miklu meira, það þarf að senda fulltrúa þarna út og hjálpa þessu fólki út.“