Fótbolti

Máttu ekki hita upp merktir stofnanda lýð­veldisins og neituðu að spila

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úrslitaleik tyrkneska ofurbikarsins hefur verið frestað um óákveðinn tíma.
Úrslitaleik tyrkneska ofurbikarsins hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Vísir/Getty

Úrslitaleik tyrkneska ofurbikarsins milli Galatasaray og Fenerbache sem átti að fara fram í kvöld hefur verið frestað um óákveðin tíma. Leikmönnum var bannað að hita upp í treyjum merktum Mustafa Kemal Ataturk, stofnanda lýðveldisins Tyrklands, og neituðu því að spila.

Úrslitaleikurinn átti að fara fram í Riyad, höfuðborg Sádi-Arabíu, á King Saud University vellinum, sem einnig er þekktur sem Al-Awwal Park. Að því er fram kemur á fréttaveitunni Reuters segja tyrkneskir fjölmiðlar að yfirvöld í Sádi-Arabíu hafi bannað leikmönnum að hita upp í treyjunum, en ekki er vitað af hverju.

„Úrslitaleik Ofurbikarsins 2023 hefur verið frestað um óákveðinn tíma í kjölfar sameiginlegrar ákvörðunar sem við tókum með félögunum vegna vandræða í skipulagningu,“ segir í yfirlýsingu félaganna, sem og tyrkneska knattspyrnusambandsins, á X, áður Twitter.

Ekki er vitað hvar eða hvenær leikurinn mun fara fram, en í yfirlýsingunni var knattspyrnusambandi Sádi-Arabíu og yfirvöldum þar í landi einnig þakkað fyrir að skipuleggja viðburðinn.

Þá höfðu fjölmiðlar áður einnig greint frá því að hvorki þjóðsöngur né -fáni Tyrklands yrði leyfður á úrslitaleiknum, en tyrkneska knattspyrnusambandið greindi frá því að hvoru tveggja kæmi við sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×