Boðað var til viðburðarins í gær á Facebook, sem heitir einfaldlega „Björgum kindum í Þverárhlíð í Borgarfirði“ en hópurinn lagði af stað í leiðangurinn klukkan 12:30 frá N1 í Borgarnesi.
Steinunn Árnadóttir organgist í Borgarnesi er ein af skipuleggjendum ferðarinnar og þekkir vel til kindanna enda margoft búin að benda á ástand þeirra á samfélagsmiðlum og víðar.
„Það er orðið mikið fannfergi þarna og við köllum þetta að það sé jarðbann, þær hafa ekkert fóður og ekkert til að næra sig á og þar eru náttúrulega öll lög um velferð dýra brotin. Þetta eru kindur, sem eiga að vera á húsi, þær eiga að hafa fóður og þær eiga að hafa skjól og það er ekki í boði fyrir þær þó maður sé búin að biðja um það,“ segir Steinunn.
Steinunn segist ekki vita nákvæmlega hvaðan kindurnar séu en hefur þú grun um af hvaða bæ þær eru, sem er undir eftirliti hjá Matvælastofnun. Hún segir að Borgarbyggð eigi að koma kindunum á hús.
„Já, sveitarfélagið á að sjá um að útigangsfé sé smalað en það hefur ekki gert það þó maður hafi beðið um það. Matvælastofnun á að fylgja því eftir að það sé gert. Ég hafði samband við héraðsdýralækni núna í fyrradag og í gær og í gær staðfesti hún það eftir sveitarstjórnaraðila að það væri búið að bregðast við. Það væri búið að smala þessum kindum og koma þeim í skjól og gefa þeim. Ég fór og athugaði hvort það væri rétt og það var ekki rétt og það er mjög slæmt þegar sveitarstjórnaraðilar ljúga til um svona hluti,“ segir Steinunn og bætti við að ein kindin sé öll vafin í gaddavír og að hún sé búin að láta vita af því í mánuð án nokkurra viðbragða.