„Þetta var mjög fínt. Ég bara hef ekki orð, trúi ekki eigin augum.“
Svona lýsti Reynir Pétur tilfinningunni sem fylgdi því að vera sæmdur fálkaorðunni. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi átti hann erfitt með að leyna tilfinningum sínum, enda um stórviðburð að ræða.
„Ég held þetta hafi komið því ég hef gert svo margt fyrir staðinn, Sólheima, og svo náttúrulega gangan mín.“
Gangan sem Reynir vísar til er afrek hans árið 1985 þegar hann gekk hringinn í kringum landið og safnaði áheitum sem nýtt voru við gerð íþróttahúss að Sólheimum. Um leið vakti hann athygli á málstað fólks með fötlun og þroskaskerðingar.

„Þetta gaf mér svo mikið, að fara gönguna, ekki bara að rjúfa múrinn, en að sjá landslagið, landið mitt. Þú sérð það mikið betur á eigin fótum heldur en en í bíl,“ segir Reynir.
„Það er eiginlega gjöf sem ég fékk, að hafa fengið tækifæri til að fara hringinn.“
Vonast eftir kraftaverkaári
Reynir segist hafa verið þjáður af minnimáttarkennd þegar hann var yngri. Viðurkenningin í dag hafi því komið sér ákaflega vel.
„Ég er eiginlega bara hálf klökkur. Þetta er bara ágætt. Ég hef oft verið að hugsa „hvers virði er ég?“ og svarið er komið núna.“
Eins og ég segi er ég gráti næst, ég er mjög ánægður með þetta.
Aðspurður um hvað sé framundan á nýju ári segir Reynir Pétur það verða að koma í ljós.

„Ég vona að þetta verði kraftaverkaár. Það sem ég vil er að biðja fyrir öllum í heiminum. Það er nógu mikið óhreint í heiminum, ég vil bara biðja um stóran frið yfir allan heiminn. Það sem er að þjaka, bæði stríð, misnotkun og misþyrmingar, nefndu það. Allt getur batnað svo það verði glitrandi hreint, silfur sem gull,“ segir fálkaorðuhafinn Reynir Pétur Ingvarsson.