Erlent

Enn leitað að fólki eftir jarð­skjálftann í Japan

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hér má sjá byggingu sem féll á hliðina eftir jarðkjálfta í Wajima í Ishikawa-héraði.
Hér má sjá byggingu sem féll á hliðina eftir jarðkjálfta í Wajima í Ishikawa-héraði. AP/Kyodo News

Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir jarðskjálftann sem reið yfir Japan á nýársdag að sögn yfirvalda. Fjöldi húsa eyðilagðist, um 33 þúsund heimili eru án rafmagns og mörg þúsund manns hafa flúið vesturströndina vegna hættu á flóðbylgjum.

Skjálftinn mældist 7,6 að stærð en ekki er vitað hvert umfang eyðileggingarinnar er og enn er leitað að fólki í rústunum. 

Þá olli skjálftinn flóðbylgjum sem náðu allt að metra hæð og riðu yfir vesturströnd Japan og austurströnd Suður-Kóreu.

Innviðir illa farnir og björgunarstarf flókið

Herinn var ræstur út til að aðstoða í björgunarstarfi en umfangsmiklar skemmdir á vegum hafa gert björgunarstarfsfólki erfiðara fyrir. Þá var einum flugvelli á svæðinu lokað eftir að sprungur opnuðust á flugbraut hans.

Japanski fréttamiðillinn NHK segir lækna ekki hafa komist að sjúkrahúsinu í bænum Suzu sem fór ansi illa út úr skjálftanum. Sjúkrahúsið gengur nú fyrir vararafali vegna rafmagnsleysis á svæðinu.

Maður á tíræðisaldri var úrskurðaður látinn eftir að bygging hrundi í bænum Shika í Ishikawa-héraði. Miðillinn Kyodo News greindi frá fjórum dauðsföllum í Ishikawa, karlmanni og konu á sextugsaldri, ungum dreng og karlmanni á áttræðisaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×