Um þúsund manna björgunarlið leitar nú að fólki sem talið er að kunni að vera grafið í húsarústum og hefur japanski herinn unnið að því að koma hjálpargögnum til þeirra sem hafa neyðst til að flýja heimili sín. Ýmsar hindranir á vegum – bæði vegna skemmdra húsa, bilaðra bíla og fallinna trjáa – hafa torveldað björgunarstarf.
Skjálftinn mældist 7,6 að stærð og átti upptök sín í Japanshafi, vestur af Japan, um klukkan 16 að staðartíma í gær. Yfirvöld gáfu strax út flóðbylgjuviðvörun og beindi því strax til fólks að leita á hærri stað í landslagi. Flóðbylgjan náði allt að metra að hæð, en flóðbylgjuviðvörunum hefur nú verið aflétt.

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, segir að eyðilegginguna mikla og ljóst að manntjónið sé mikið.
Talsmenn yfirvalda staðfesta að fimmtán hið minnsta hafi látist í borginni Wajima, sex í Suzu nyrst á Noto-skaganum, og fimm í Nanao. Þá hafa einhverjir fundist látnir í Hakui, Anamizu og Shika.
Talsvert hefur verið um eftirskjálfta frá því að stóri skjálftinn reið yfir í gær og hefur sá stærsti mælst 6 að stærð.