Erlent

Leið­togi stjórnar­and­stöðunnar í Suður-Kóreu stunginn í hálsinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lee er ekki talinn í lífshættu.
Lee er ekki talinn í lífshættu. Getty/Busan Daily News

Lee Jae-myung, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Suður-Kóreu, var stunginn í hálsinn í borginni Busan í gær. Hann dvelur nú á spítala en sár hans eru ekki talinn lífshættuleg.

Samkvæmt fréttastofunni Yonhap var Lee stunginn af manni sem þóttist vera stuðningsmaður hans. Bað árásarmaðurinn Lee um eiginhandaráritun en lagði svo skyndilega til hans með 20 til 30 sentímetra löngu hnífsblaði.

Yonhap hefur birt myndir þar sem Lee sést liggja í götunni með augun lokuð, á meðan fólk í kringum hann reynir að stöðva blæðinguna með vasaklút. Leiðtoginn var fluttur á sjúkrahús innan við 20 mínútum eftir árásina og var sagður með meðvitund.

Hann var síðar fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Seúl þar sem hann mun gangast undir skurðaðgerð.

Lee er mannréttindalögfræðingur og leiðtogi Lýðræðisflokksins. Hann tapaði naumlega fyrir íhaldsmanninum Yoon Suk Yeol í forsetakosningum í fyrra. Gert er ráð fyrir að hann muni bjóða sig fram á ný árið 2027.

Yoon hefur fordæmt árásina á Lee og sagt að ofbeldi af þessu tagi eigi aldrei að líðast.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×