Enski boltinn

Liverpool setti xG-met gegn Newcastle

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Curtis Jones á eitt 35 skota Liverpool í leiknum gegn Newcastle United.
Curtis Jones á eitt 35 skota Liverpool í leiknum gegn Newcastle United. getty/Jan Kruger

Liverpool setti met yfir flest vænt mörk (xG) þegar liðið sigraði Newcastle United, 4-2, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Mohamed Salah skoraði tvö mörk og Curtis Jones og Cody Gakpo sitt markið hvor þegar Rauði herinn lagði Skjórana að velli. Með sigrinum náði Liverpool þriggja stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool var í miklum sóknarhug í leiknum á Anfield í gær. Strákarnir hans Jürgens Klopp áttu 34 skot í leiknum, þar af fimmtán á markið.

Liverpool var með 7,27 vænt mörk (xG) í leiknum sem er það mesta síðan byrjað var að taka þessa tölfræði saman í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2010-11. Vænt mörk segja til um hversu mörg mörk lið „ætti“ að skora miðað við hversu góð færi það skapar.

Þrátt fyrir að hafa fengið á sig fjögur mörk var Martin Dúbravka besti leikmaður Newcastle í leiknum en hann hafði nóg að gera og varði fjölda skota Liverpool-manna. Þeim tókst þó að koma boltanum í fjórgang framhjá Slóvakanum.

Liverpool hefur skorað 43 mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Aðeins Manchester City hefur skorað fleiri (45). Salah er markahæstur í deildinni ásamt Erling Haaland hjá City en þeir hafa báðir skorað fjórtán mörk. Auk þess hefur Salah lagt upp átta mörk.

Næsti leikur Liverpool er gegn Arsenal í 3. umferð ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn. Næsti deildarleikur Rauða hersins er gegn Bournemouth á útivelli 21. janúar.


Tengdar fréttir

Sérfræðingarnir saka Liverpool manninn um leikaraskap

Diogo Jota fiskaði vítaspyrnu á mikilvægum tímapunkti undir lok leiks Liverpool og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og margir sérfræðingar sökuðu hann í kjölfarið um leikaraskap.

Mynda­töku­maðurinn kom Jürgen Klopp til bjargar

Fögnuður Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, eftir sigurinn á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi breyttist snögglega í andstöðu sína þegar hann týndi giftingarhringnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×