Erlent

Næst­ráðandi Hamas-sam­takanna féll í dróna­á­rás í Beirút

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill mannfjöldi safnaðist saman fyrir utan bygginguna í Dahiyeh, úthverfi Beirút, í kjölfar sprengingarinnar í dag.
Mikill mannfjöldi safnaðist saman fyrir utan bygginguna í Dahiyeh, úthverfi Beirút, í kjölfar sprengingarinnar í dag. AP

Saleh al-Arouri, næstráðandi Hamas-samtakanna, er í hópi látinna eftir drónaárás í líbönsku höfuðborginni Beirút síðdegis í dag.

Í frétt BBC segir að talsmaður Hamas staðfesti að al-Arouri sé í hópi sex látinna, en ríkisfjölmiðillinn í Líbanon segir Ísraelsher bera ábyrgð á árásinni. 

Talsmaður Ísraelshers segir við BBC að herinn muni ekki tjá sig um fréttir í erlendum fjölmiðlum. Sé raunin sú að Ísraelsher ber ábyrgð á árásinni er um að ræða mikla stigmögnun á átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Sayyed Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah hefur áður heitið því að hefna allra árása Ísraela sem beinast gegn palestínskum embættismönnum í Líbanon. 

Saleh Al-Arouri, næstráðandi Hamas-samtakanna, árið 2017. Hann stýrði meðal annars starfsemi Hamas á Vesturbakkanum. Getty

Árásin var gerð í hverfinu Dahiyeh í Beirút. Vitað er að Hamas, samtökin sem hafa ráðið ráðum á Gasaströndinni, er með náin tengsl við hryðjuverkasamtökin Hezbollah sem er með sterk ítök í Dahiyeh.

Mikil spenna hefur verið á landamærum Ísraels og Líbanon síðustu vikurnar, eða frá 7. október síðastliðnum og hafa bæði ísraelskir hermenn og liðsmenn Hezbollah látið lífið í átökunum. Þúsundir Ísraelsmanna, sem búa nærri líbönsku landamærunum, hafa flúið heimili sín síðustu vikurnar vegna átakanna.

Ísraelski varnarmálaráðherrann Benny Gantz sagði í desember að ísraelskar hersveitir myndu vinna að því fjarlægja sveitir Hezbollah frá svæðinu nærri landamærunum, héldu árásirnar áfram.

Stjórnvöld í Íran fjármagna að stærstum hluta starfsemi Hezbollah sem Vesturlönd hafa skilgreint sem hryðjuverkasamtök.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×