Radosław Sikorski sagði á samfélagsmiðlum að Vesturlönd þyrftu að svara umfangsmiklum loftárásum Vladimir Pútín Rússlandsforseta undanfarna daga á „tungumáli sem hann skildi“.
Sikorski sagði að bandamenn ættu meðal annars herða refsiaðgerðir sínar gegn Rússum og koma í veg fyrir að þeir gætu framleitt vopn með „smygluðum íhlutum“. Hann hefur sagt að Vesturlönd ættu að gera allt sem þau geta til að vopna Úkraínu.
Rússneski herinn greindi frá því í dag að hann hefði skotið niður tólf úkraínskar eldflaugar yfir Belgorod-héraði. Ríkisstjórinn Vyacheslav Gladkov sagði nokkra spennu ríkja í samnefndri höfuðborg héraðsins.
Guardian segir árásum Úkraínumanna á Belgorod meðal annars ætlað að grafa undan og gera lítið úr þeim fullyrðingum Pútín að lífið gangi sinn vanagang í Rússlandi þrátt fyrir átökin í Úkraínu. Um 340 þúsund manns búa í Belgorod, sem er stærst þeirra borga sem liggja nærri landamærunum að Úkraínu.