Þetta segir í tilkynningu á vef bankans frá því fyrir jól. Þar segir að þann fyrsta september síðastliðinn hafi bankinn hætt að selja seðla í dönskum, norskum og sænskum krónum.
„Á undanförnum árum hafa reglur um peningaþvættisvarnir verið hertar verulega ásamt því sem Norðurlöndin eru að þróast í áttina að því að verða seðlalaus samfélög. Af þeim sökum hefur orðið sífellt erfiðara fyrir bankann að losna við seðla í dönskum krónum.“
Greint var frá því á dögunum að Arion banki myndi hætta að taka við dönskum 500 og 1.000 króna seðlum frá og með áramótum.
Í tilkynningu þess efnis var sömuleiðis vísað til hertra peningaþvættisreglna í Danmörku. Því virðist svo vera að hver fari að verða síðastur að leggja inn dönsku krónurnar sínar í banka hér á landi. Þó hefur Landsbankinn ekki tilkynnt um neinar breytingar á sínum bæ í þessu efnum.