Körfubolti

Kefla­vík að landa Danero sem gæti mætt gamla liðinu sínu í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Danero Thomas hætti hjá Hamri í síðasta mánuði en gæti mögulega mætt liðinu í kvöld.
Danero Thomas hætti hjá Hamri í síðasta mánuði en gæti mögulega mætt liðinu í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Körfuboltamaðurinn Danero Thomas hefur ákveðið að hætta við að leggja skóna á hilluna og allt útlit er fyrir að hann spili með Keflavík það sem eftir lifir leiktíðar.

Danero hætti hjá botnliði Hamars fyrir áramót og lét þá hafa eftir sér að hann hygðist snúa sér að þjálfun. Pétur Ingvarsson, fyrrverandi þjálfari hans hjá Breiðabliki og nú þjálfari Keflavíkur, hefur hins vegar sannfært þennan reynslumikla leikmann um að halda áfram að spila.

Pétur segir þó að ekki sé allt frágengið varðandi samning við Danero en að mögulegt sé að það takist í dag svo að hann verði með í leiknum við sitt gamla lið, Hamar, í Subway-deildinni í kvöld.

„Við reyndum að benda honum á að Tom Brady hefði nú hætt nokkrum sinnum en alltaf snúið aftur,“ sagði Pétur léttur í bragði við Vísi.

Danero tók þátt í öllum ellefu leikjum Hamars þetta tímabilið og skoraði tæp ellefu stig að meðaltali og tók sex fráköst.

„Ég þjálfaði hann náttúrulega í tvö ár og veit að hann er „professional“ í öllu, og passar inn í þennan hóp,“ sagði Pétur en bætti við að það væri þó ljóst að Danero yrði í takmörkuðu hlutverki hjá Keflavík, sem er tveimur stigum frá toppi deildarinnar. Reynsla hans og leiðtogahæfileikar kæmu þó til með að reynast liðinu dýrmæt.

Danero, sem er 37 ára gamall, hefur leikið á Íslandi frá árinu 2012 þegar hann kom til KR. Hann er bandarískur en öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt og á að baki þrjá landsleiki fyrir Ísland. Danero lék eins og fyrr segir síðast með Hamri en hefur einnig leikið með Breiðabliki, ÍR, Tindastóli, Þór Akureyri, Fjölni, Val og KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×