Innlent

„Þetta hefur ekkert með þjóðar­sátt að gera“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þórarinn Eyfjörð segir yfirstandandi viðræður ekkert hafa að gera með þjóðarsátt.
Þórarinn Eyfjörð segir yfirstandandi viðræður ekkert hafa að gera með þjóðarsátt. Stöð 2

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis og fyrsti varaformaður BSRB, segir ekkert samráð hafa verið haft við heildarsamtök opinberra starfsmanna í tengslum við yfirstandandi viðræður Samtaka atvinnulífsins og nokkurra leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar.

„Ég held að ekki nokk­ur maður hafi tekið upp sím­ann til að ræða við einn eða neinn á þeim vett­vangi,“ segir Þórarinn í samtali við Morgunblaðið

„Þetta eru viðræður á milli Sam­taka at­vinnu­lífs­ins og til­tek­inna fé­laga inn­an ASÍ. Þetta hef­ur ekk­ert með þjóðarsátt að gera, ekki nokk­urn skapaðan hlut,“ segir hann einnig.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað leiðtoga þeirra félaga sem hafa ákveðið að vera í samfloti í viðræðum sínum við SA til fundar í dag. 

Þetta eru Ragnar Þór Ingólfsson fyrir VR, Sólveig Anna Jónsdóttir fyrir Eflingu, Vilhjálmur Birgisson fyrir Starfsgreinasambandið, Eiður Stefánsson fyrir Landssamband verslunarmanna og Hilmar Harðarson fyrir Samiðn.

Morgunblaðið hefur eftir Stefáni Vagni Stefánssyni, formanni fjárlaganefndar, að hann trúi ekki öðru en að stjórnvöld og ríkið muni skoða það vel að eiga aðild að viðræðum „sem snúa að þjóðarsátt á vinnumarkaði“.

Stjórnvöld geti sótt í varasjóð til að taka á óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum en í sjóðnum séu 40 til 50 milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×