Lebron James gaf sig til tals við blaðamenn að leik loknum, hann var ansi niðurlútur og virtist áhyggjufullur um stöðu liðsins. Hann fór fáum orðum um það og afsakaði gengið ekkert.
„Ég meina, við erum bara ömurlegir akkúrat núna“ sagði Lebron.
Það var mikil gleði í borg englanna þegar Lakers lyftu bikar í Las Vegas fyrir tæpum mánuði síðan. Aðdáendur og leikmenn liðsins voru kampakátir með titilinn og horfðu fram á bjarta tíma. Síðan þá hefur liðið aðeins unnið þrjá af þrettán leikjum og er sem stendur í 11. sæti vesturhluta deildarinnar.
Lebron lagði áherslu á að rýna ekki of mikið í mótið og skoða frekar nýlegar frammistöður.
„Þetta voru bara tveir leikir, lítið sýnishorn. Allir voru svo spenntur eftir Vegas og halda áfram að tala um Vegas en þetta voru bara tveir leikir. Við komum, sáum og sigruðum, en þetta voru bara tveir leikir.“
Eftir að hafa eytt meginhluta desembermánaðar á ferðalagi eiga Lakers marga heimaleiki framundan í janúar. Þeir spila næst við nágranna sína LA Clippers á sunnudag og gefst þar tækifæri til að rétta úr kútnum.