Þetta kemur fram í skriflegu svari Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, við fyrirspurn Vísis. Farþegaflugvél Alaska Airlines er af gerðinni Boeing 737 Max 9 en Icelandair á fjórar vélar af þeirri gerð. Bandaríska flugfélagið hefur ákveðið að kyrrsetja allar sínar vélar af þessari gerð á meðan rannsókn málsins stendur yfir.
„Við fylgjumst með málinu, erum í samskiptum við Boeing og erum að afla nánari upplýsinga,“ segir Guðni í svari sínu.
Flugvélin var á leið frá Portland í Oregon ríki í Bandaríkjunum til Kaliforníu og hafði verið á lofti í skamma stund þegar hluti vélarinnar féll af henni með þeim afleiðingum að stórt gat myndaðist í farþegarýminu. 177 farþegar voru um borð en engan sakaði.
Vélinni var snúið aftur við til Portland og lenti eftir 35 mínútna flug. Mildi þykir að enginn hafi setið í vélinni þar sem hún opnaðist.
Fram kom í umfjöllun erlendra miðla að flugmálayfirvöld og framleiðandinn Boeing hyggist rannsaka atvikið í þaula. Max vélar framleiðandans eru undir mesta eftirliti sem um getur í heiminum eftir að allar vélar af þeirri gerð voru kyrrsettar í eitt og hálft ár í mars 2019 eftir tvö mannskæð flugslys.
Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC var meðal þeirra sem fjallaði um mál flugvélarinnar.