Fótbolti

„Kannski það eina sem mér fannst ekki gott við við­skilnaðinn“

Aron Guðmundsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfaði Lyngby við góðan orðstír og er þakklátur öllum hjá félaginu fyrir traustið nú þegar að hann hefur verið keyptur til belgíska liðsins KV Kortrijk 
Freyr Alexandersson, þjálfaði Lyngby við góðan orðstír og er þakklátur öllum hjá félaginu fyrir traustið nú þegar að hann hefur verið keyptur til belgíska liðsins KV Kortrijk  Vísir/Getty

Á tíma­mótum lítur Freyr Alexanders­son, sem hefur tekið að sér nýtt þjálfara­starf hjá KV Kortijk í Belgíu, stoltur yfir tíma sinn hjá danska úr­vals­deildar­fé­laginu Lyng­by.

Freyr tók við stjórnar­taumunum hjá Lyng­by sumarið 2021 og var liðið þá í dönsku B-deildinni. Undir stjórn Ís­lendingsins tryggði Lyng­by sér upp í dönsku úr­vals­deildina og á síðasta tíma­bili bjargaði liðið sæti sínu í deildinni á ævin­týra­legan hátt í loka­um­ferðinni. Af­reki sem var lýst sem krafta­verkinu mikla.

Freyr Alexandersson var og verður í miklum metum í Lyngby.Getty/Jan Christensen

Á yfir­standandi tíma­bili hefur liðinu gengið vel og situr um miðja deild. Leiðir, í því sem virðist vera hið full­komna dæmi um gott sam­starf þjálfara og fé­lags, skilja nú og er Freyr þakk­látur fyrir tíma sinn hjá Lyng­by.

„Ég er mjög stoltur. Ó­trú­lega á­nægður með dvöl mína hjá fé­laginu frá upp­hafi til enda. Þetta hefur verið draumi líkast. Þegar að ég var ráðinn til Lyng­by á sínum tíma voru margir sem ráð­lögðu mér það, áður en ég tók við starfinu, að taka ekki við starfinu. Út af svipuðum á­stæðum og er verið að nefna núna þegar að ég tek við þjálfun Kortrijk. Ekki alveg jafn ýktum en svipuðum.

Ég fór eftir minni sann­færingu og rann­sóknar­vinnu. Ég vissi hvað þyrfti til og það gekk upp. Þetta er bara búið að vera ævin­týri líkast. Sam­starfið með starfs­fólki fé­lagsins, stuðnings­mönnum, leik­mönnum og eig­endum. Ég er búinn að gera það sem ég var beðinn um að gera. Fé­lagið er búið að vaxa, við höfum náð góðum árangri innan sem og utan vallar. 

Þá hef ég vaxið líka. Ég hef fengið það út úr þessu verk­efni sem ég vildi. Ég er bara of­boðs­lega þakk­látur öllum í kringum Lyng­by. Þá er gaman að sjá hvað Lyng­by hefur átt stóran sess hjá Ís­lendingum. Vonandi heldur það á­fram.“

Vista­skipti Freys yfir til Belgíu koma upp á tíma þar sem leik­menn Lyng­by voru í vetrar­fríi. Þar með gafst honum ekki tæki­færi til þess að kveðja leik­menn í eigin per­sónu. Eini leiðin­legi anginn á annars við­skilnaði í sátt og sam­lyndi allra.

„Það er kannski það eina sem mér fannst ekki gott við við­skilnaðinn. Ég gat ekki knúsað leik­mennina, horft í augun á þeim og sagt bless þannig. Því miður. Ég er hins vegar búinn að tala við þá flesta og þeir sýna mér mikinn skilning.

Varðandi stuðnings­mennina þá er planið að ég snúi aftur til Lyng­by við fyrsta tæki­færi og þakki þeim fyrir. Vonandi fæ ég að gera það. Það er planið en verður undir nýja þjálfaranum komið. Ég verð líka að bera virðingu fyrir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×