Erlent

Banda­ríkja­menn í­treka að Palestínu­menn eigi að fá að snúa heim

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blinken ásamt Mohammed bin Abdulrahman Al Thani, forsætis- og utanríkisráðherra Katar.
Blinken ásamt Mohammed bin Abdulrahman Al Thani, forsætis- og utanríkisráðherra Katar. AP/Evelyn Hockstein

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú í opinberri heimsókn í Mið-Austurlöndum og hefur meðal annars notað tækifærið til að ítreka þá afstöðu stjórnvalda vestanhafs að Palestínumenn eigi að fá að snúa aftur heim eftir að átökum á Gasa lýkur.

„Palestínskir borgarar verða að fá að snúa aftur heim um leið og aðstæður heimila... Það má ekki þrýsta á þá um að yfirgefa Gasa,“ sagði Blinken á blaðamannafundi þegar hann yfirgaf Doha í Katar.

Um er að ræða viðbrögð við ummælum nokkurra ráðherra innan ríkisstjórnar Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sem hafa ýmist sagt það hreint út eða ýjað að því að það ætti að „hvetja“ Palestínumenn til að yfirgefa Gasa og hleypa Ísraelsmönnum að.

Einn talaði um að flæma Palestínumenn á brott til að „eyðimörkin fengi að blómstra á ný“.

Blinken varaði einnig við því að átökin gætu breiðst út, ef ekki væri vel að gáð. 

„Þetta eru átök sem geta auðveldlega myndað meinvörp og skapað frekari óöryggi og þjáningu,“ sagði hann.

Netanyahu ítrekaði hins vegar í gær að Ísraelar myndu ekki láta af aðgerðum sínum fyrr en markmiðum þeirra væri náð; að útrýma Hamas, endurheimta alla gíslana sem teknir voru í árásunum 7. október síðastliðinn og tryggja að Ísrael stafaði ekki lengur ógn af Gasa.

„Ég beini þessum orðum bæði til óvina okkar og vina,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×