Erlent

Mun hvetja Ísraels­menn til að draga úr að­gerðum og horfa til fram­tíðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blinken lenti í Tel Aviv í gærkvöldi.
Blinken lenti í Tel Aviv í gærkvöldi. AP/Evelyn Hockstein

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er mættur til Tel Aviv í Ísrael þar sem hann er sagður munu freista þess að þrýsta á stjórnvöld að draga úr þunga aðgerða sinna á Gasa og hefja viðræður um stjórnun svæðisins þegar átökum lýkur.

Blinken hefur verið á ferðalagi um Mið-Austurlönd og átt viðræður við leiðtoga Arabaríkjanna. Hann sagðist myndu leggja áherslu á það í viðræðum sínum við ráðamenn í Ísrael að meira yrði gert til að vernda almenna borgara og koma neyðaraðstoð til þeirra sem þyrftu raunverulega á henni að halda.

Axios hefur hins vegar eftir tveimur háttsettum embættismönnum í Ísrael að yfirvöld muni ítreka þá afstöðu sína að íbúum í norðurhluta Gasa verði ekki hleypt aftur þangað fyrr en Hamas-samtökin hafa sleppt fleiri gíslum.

Bandaríkin hafa staðið þétt við bakið á Ísraelsmönnum síðan átök brutust út í kjölfar árása Hamas á byggðir Ísraelsmanna 7. október síðastliðinn. Það er hins vegar sagt hafa vakið nokkra reiði í Washington hversu erfiðlega hefur gengið að fá Benjamin Netanyahu forsætisráðherra til að ræða framtíð Gasa.

Hann hefur hafnað tillögum Bandaríkjamanna um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu á Gasa og Vesturbakkanum en flest ríki heims segja svokallaða „tveggja ríkja lausn“ einu leiðina til að freista þess að koma á friði á svæðinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann hefði unnið að því á bakvið tjöldin að hvetja Ísraela til að draga úr árásum sínum og viðveru á Gasa. Hermálayfirvöld í Ísrael segja aðgerðirnar að verða hnitmiðaðri en samkvæmt erlendum miðlum hefur þó ekki dregið úr árásum enn sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×