Körfubolti

Ívar: Everage er ekki ó­á­nægður og ekki á förum frá Blikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki sáttur með fréttina um leikmanninn sinn á Vísi í morgun.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki sáttur með fréttina um leikmanninn sinn á Vísi í morgun. Vísir/Hulda Margrét

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, er ekki sáttur við umræðu um leikmann hans Everage Richardson í Körfuboltakvöldi Extra í gær og í framhaldinu síðan frétt um þá umræðu inn á Vísi í dag.

Í Körfuboltakvöldi Extra í gær kom fram að Everage vildi fara frá Breiðabliki til Hauka en Ívar segir að það sé ekki rétt.

„Í fyrsta lagi hefur Everage ekki verið óánægður hjá okkur. Hann hefur aldrei beðið um að fara,“ sagði Ívar Ásgrímsson.

„Það er birt fyrirsögn um að hann sé óánægður. Ég næ þessu ekki,“ sagði Ívar sem var ekki sáttur við fréttina á Vísi sem var það fyrsta sem hann frétti af þessari umræðu því Ívar segist ekki horfa á Körfuboltakvöld.

„Hann er á samningi hjá Breiðabliki. Haukarnir ræddu við hann og buðu honum hærri laun. Þeir ræddu við samningsbundinn leikmann og reyndu að koma upp óánægju hjá honum með því að reyna að bjóða honum meiri pening,“ sagði Ívar.

„Það er þeirra leið til þess að falla ekki. Ekki að gera liðið sitt betra. Þeir treysta hvorki sínum leikmönnum né þjálfara í þessa baráttu sem framundan er,“ sagði Ívar.

Haukar og Breiðablik munu berjast um það að falla ekki úr Subway deildinni í vor.

„Það er hundrað prósent öruggt. Það er bara barátta á milli þessara tveggja liða. Það var líka ljóst að við myndum falla ef við hefðum tapað á móti Haukum,“ sagði Ívar um mikilvæga leikinn í síðustu umferð.

Everage var frábær þegar Blikarnir unnu Hauka og héldu sér á lífi í fallbaráttunni. Ívar segir að Breiðablik hafi staðið við allt sitt gagnvart leikmanninum.

„Everage er atvinnumaður og hann leggur sig fram. Ég held að það hafi allir séð það í leiknum. Hann hefur alltaf fengið greitt ,“ sagði Ívar.

„Þetta er bara leið Hauka að veikja okkur. Þeir sjá að við erum á uppleið en þeir á niðurleið,“ sagði Ívar.

„Ég vildi að ég væri að reyna að fella eitthvað annað lið en Hauka. Ég vil ekki að Haukar fari niður en ég er þjálfari Breiðabliks og geri allt til þess að mitt lið verði uppi,“ sagði Ívar.

Ívar veit ekki hvað Breiðablik geti gert í þessu máli. „Þeir segja að Everage hafi haft samband við þá í sumar og það sé þeirra afsökun. Það er allt annað hvort menn skipti á sumri eða skipti í febrúar þegar þeir eru í baráttu við okkur,“ sagði Ívar.

„Þarna er verið að ræða við mann sem er á samning. Þarna er lið í órétti að það er ljóst að það er mikill skjálfti á Ásvöllum,“ sagði Ívar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×