Innlent

Hefur á­hyggjur af því að allir séu upp á kant við ráð­herra

Jón Þór Stefánsson skrifar
FotoJet (15)

Vilhjálmur Árnason, ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki upplifa átök innan flokksins um stöðu matvælaráðherra. Það sé búið að vera ljóst síðan í sumar að þingflokknum hafi fundist ákvörðun ráðherra um að fresta hvalveiðum slæm.

„Við erum sammála að svona gengur maður ekki fram gegn stjórnskipan í landinu,“ sagði Vilhjálmur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Svarar ekki hvort hann styðji Svandísi

Aðspurður um hvort hann sjálfur styðji Svandísi Svavarsdóttur sem matvælaráðherra hann orðinn áhyggjufullur. 

„Ég er farinn að hafa mjög miklar áhyggjur af því hvernig hver atvinnugreinun á fætur annarri er komin upp á kant við ráðherra og nýtur ekki trausts. Mér finnst erfitt að vera með ráðherra í atvinnuvegaráðuneytinu sem enginn atvinnuvegur ber traust til.“

Ég væri helst til í já eða nei. Styður þú Svandísi?

„Ég ætla bara að sjá núna hvernig Vinstri grænir og forsætisráðherra í ríkisstjórn ætla að sýna okkur það hvernig á að vinna þetta traust til baka, og gefa þeim svigrúm til þess, svo þau geti sýnt í verki að þau taki þetta álit umboðsmanns alvarlega.“

En þú vilt ekki svara já eða nei?

„Nei. Ég vil gefa þeim tækifæri. Því við erum hér með ríkisstjórn og það þarf að stjórna landinu. Þannig að forsætisráðherra og Vinstri grænir þurfa nú að svara því hvort þau taki svona áliti alvarlega, og hvernig þau ætla að vinna traust atvinnugreinanna aftur til baka.“

Veit ekki um ráðherrakapal

Aðspurður um hvort honum þyki líklegt að Svandís hreinlega skipti um ráðherrastól segist Vilhjálmur ekki vita til þess. 

„Ég veit ekkert hvernig þau sjá það fyrir sér. Ég hef ekki lagt það í vana minn að skipta mér að ráðherraskipan annarra flokka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×