Erlent

Christi­e dregur sig í hlé en biðlar til kjós­enda að hafna Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Christie hefur verið eina forsetaefni Repúblikanaflokksins sem hefur vaðið í Trump.
Christie hefur verið eina forsetaefni Repúblikanaflokksins sem hefur vaðið í Trump. AP/Robert F. Bukaty

Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey, hefur dregið sig úr forkosningum Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar. Valið mun þá stand á milli Donald Trump, Nikki Haley og Ron DeSantis.

„Ég ætla að tryggja að ég muni á engan hátt greiða fyrir því að Donald Trump verði aftur forseti Bandaríkjanna,“ sagði Christie þegar hann tilkynnti ákvörðun sína. 

Christie hefur sætt nokkrum þrýstingi samflokksmanna sinna um að draga sig til hlés, ef það mætti verða til þess að hófsamari armur Repúblikanaflokksins næði að sameinast um frambjóðanda annan en Trump.

Stjórnmálaspekingar segja hins vegar að Christie hafi líklega viljað vera með eins lengi og unnt var til að gera allt sem í valdi hans stæði til að gagnrýna Trump og draga úr stuðningi við hann.

Christie, sem var eitt sinn ötull stuðningsmaður og samverkamaður Trump, hefur verið meðal hörðustu gagnrýnenda hans síðustu misseri og sá eini af forsetaefnum Repúblikanaflokksins sem hefur ekki veigrað sér við því að hjóla í forsetann fyrrverandi.

Áður en hann greindi frá ákvörðun sinni náðist Christie á upptökur, þar sem hann virðist ekki hafa áttað sig á því að það var kveikt á hljóðnemanum sem hann var með, þar sem hann sagði að Haley ætti ekki séns og að DeSantis væri „skíthræddur“.

Þá biðlaði hann í kjölfarið til kjósenda um að hafna Trump, sem hann sakaði um að setja eigin hagsmuni ofar þjóðarinnar. „Donald Trump vill að þið séuð reið alla daga því hann er reiður,“ sagði Christie.

Það mun liggja fyrir í júlí hver verður frambjóðandi Repúlbikanaflokksins og mætir Joe Biden Bandaríkjaforseta í kosningunum í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×