Handbolti

„Reynslunni ríkari í dag“

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson á ferðinni í Ólympíuhöllinni í München í dag en þar spilaði hann á sínu fyrsta stórmóti.
Gísli Þorgeir Kristjánsson á ferðinni í Ólympíuhöllinni í München í dag en þar spilaði hann á sínu fyrsta stórmóti. VÍSIR/VILHELM

Gísli Þorgeir Kristjánsson á góðar minningar úr Ólympíuhöllinni í München en hann sneri aftur þangað í dag, á æfingu vegna fyrsta leiks á EM í handbolta sem er við Serbíu á morgun.

„Ég spilaði hérna árið 2019, á mínu fyrsta stórmóti, og er reynslunni ríkari í dag,“ segir Gísli Þorgeir en heimsmeistaramótið fór fram í Þýskalandi árið 2019 og Íslandi spilaði einmitt hér í München í upphafi móts.

„Já, við áttum góða leiki hér. Unnum Makedóníu og komumst áfram í milliriðla, þar sem við vissulega töpuðum í Köln gegn Þýskalandi og fleirum. En við eigum góðar minningar héðan,“ segir Gísli.

Klippa: Gísli kannast vel við sig í München

Óhætt er að segja að fjöldi Íslendinga bíði spenntur eftir morgundeginum og búist er við að um 4.000 Íslendingar komi til München vegna leikja Íslands, til að styðja við strákana.

„Það er súrrealískt. Maður er hrærður yfir þessum stuðningi og ég get ekki beðið.“

„Það er allt upp á tíu“

Gísli vann kapphlaupið við tímann um að geta verið með á EM, en hann fór í aðgerð vegna axlarmeiðsla síðasta sumar eftir að hafa tryggt Magdeburg Evrópumeistaratitilinn. Hann lætur engan bilbug á sér finna varðandi líkamlegt ástand, þó að rétt mánuður sé síðan hann gat byrjað að spila aftur handbolta:

„Það er allt upp á tíu. Ég er klár í slaginn á morgun. Fullur fókus og við ætlum að gefa allt í þennan leik, það er engin spurning.“

Gísli var einnig spurður út í stemninguna í upphafi æfingar liðsins í dag, en leikmenn virtust laufléttir og komu í salinn með íslenska tónlist á fullu blasti:

„Skímó hefur aldrei drepið neinn,“ segir Gísli léttur. „Það er alltaf góð stemning yfir því, léttur andi og menn eru klárir í þetta að því leytinu líka. En léttur andi gefur þér ekki sigur á EM. Við þurfum að standa okkur á vellinum. En það skaðar engan að hafa léttan móral og góðan anda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×