Þann 9. febrúar 2019 var McCoy sofandi í bíl sínum fyrir utan veitingastaðinn Taco Bell í Vallejo þegar lögregla mætti á staðinn eftir að hafa verið kölluð út. Stuttu eftir komu á bílastæðið hófst skothríð lögreglu á bílinn. Lögregla hélt því fram að McCoy, sem þá var tvítugur, hafi teygt sig niður í átt að byssu en á upptökum úr búkmyndavélum lögreglumanna sést engin slík hreyfing.
McCoy virtist þess í stað hafa vaknað, brugðið mjög, og teygt hönd sína í átt að öxl. Þá sýndu upptökurnar það að lögreglumenn gerðu enga tilraun til að vekja McCoy eða tilkynna honum að lögreglan væri þarna á ferð áður en þeir beindu skotvopnum í átt að höfði hans. Þá heyrist lögreglumaður á upptöku segja, áður en McCoy vaknaði: „Ef hann teygir sig í það veistu hvað þú átt að gera“ og „ég ætla að draga hann út og setja hann í járn“.
Dauði McCoys vakti mikla reiði meðal Bandaríkjamanna og miklum mótmælum var hrundið af stað í kjölfar þess að ráðgjafi, sem ráðinn var til að rannsaka málið af Vallejo, komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegt hafi verið að McCoy væri skotinn 55 sinnum. Þá vakti það jafnframt mikla reiði að saksóknarar hafi neitað að ákæra lögreglumennina sem báru ábyrgð í málinu.
Samkvæmt umfjöllun Guardian um málið er lögregluembættið í Vallejo þekkt fyrir mikla grimmd og fjöldann allan af málum er varða misferli eða vanrækslu. Á árunum 2010 til 2020 var embættið það sem bar ábyrgð á flestum dauðsföllum af öllum lögregluembættum í Kaliforníu og meira en tugur lögreglumanna hafði banað manni í vinnunni án þess að það hefði afleiðingar.
Fréttastofan Open Vallejo ljóstraði upp um það í umfjöllun sinni árið 2020 að menning hefði skapast meðal lögreglumanna í borginni að „halda upp á“ það þegar þeir skutu einhvern til bana með því að brjóta upp á odd barmmerki sínu í hvert sinn.