Allt jafnt á Old Trafford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Man United átti í miklum vandræðum með hornspyrnu gestanna.
Man United átti í miklum vandræðum með hornspyrnu gestanna. Naomi Baker/Getty Images

Manchester United og Tottenham Hotspur gerðu 2-2 jafntefli á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni. Gestirnir ef til vill svekktari með úrslitin þar sem þeir fengu töluvert betri færi en heimaliðið.

Heimamenn í Manchester United byrjuðu þó af miklum krafti. Kom danski framherjinn Rasmus Höjlund þeim yfir með frábæru skoti af stuttu færi eftir að hafa labbað framhjá Cristian Romero, miðverði gestanna, í kjölfar þess að boltinn hrökk fyrir hann inn í vítateig eftir góðan sprett Marcus Rashford.

Gestirnir létu það ekki á sig fá og jafnaði metin þegar tæpar 20 mínútur voru liðnar. Richarlison stýrði boltanum þá í netið með höfðinu eftir frábæra hornspyrnu Pedro Porro og allt orðið jafnt.

Bæði lið átt skot í marksúlurnar áður en fyrri hálfleikur var flautaður af en aðeins annað þeirra kom boltanum í netið. Það gerði Rashford fyrir heimamenn og staðan 2-1 í hálfleik. 

Markið kom eftir frábæran samleik hjá Rashford og Höjlund. Enski framherjinn kláraði færi sitt af mikilli yfirvegun en hann renndi boltanum lúmst niðri í hornið fjær, algjörlega óverjandi fyrir Guglielmo Vicario í marki gestanna.

Gestirnir komu töluvert betur stemmdir út í síðari hálfleikinn þar sem þeir jöfnuðu metin eftir örfáar sekúndur. Vicario gaf á Romero sem sprengdi miðju Man United með einni sendingu og allt í einu var Timo Werner búinn að senda  Rodrigo Bentancur inn á teig og miðjumaðurinn lappalangi jafnaði metin með frábæru skoti.

Þrátt fyrir ágætis færi þá tókst Tottenham ekki að bæta við marki og lokatölur á Old Trafford 2-2 að þessu sinni. Tottenham er í 5. sæti með 40 stig að loknum 21 leik á meðan Man United er í 7. sæti með 32 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira