Innlent

Segir farið að draga úr gos­virkni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hann segist vonast til þess að fari að draga úr virkni.
Hann segist vonast til þess að fari að draga úr virkni. Volcano Iceland

Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir merki benda til þess að farið sé að draga úr gosvirkni. Einhver merki um þenslu séu enn mælanleg en að hægt hafi verulega á því og skjálftavirkni minnkað.

„Það bendir til þess að þetta sé loksins að ná einhverju jafnvægi. Það er ekki lengur vaxandi þrýstingur í kerfinu. Þetta byrjaði þannig að þegar gosið byrjaði sáum við strax að það hægði á allri aflögun en það stöðvaðist náttúrlega ekki strax. Það tekur svolítinn tíma,“ segir Benedikt í samtali við fréttastofu.

Svipuð merki í morgun

Hann segir að þó hafi hægt á aflögun þegar gosið byrjaði en í ljós hafi komið að flæðið væri meira en gossprungurnar réðu við. Þá hafi nýja sprungan upp við byggðina opnast.

„Það virðist vera komast á jafnvægi milli flæðisins að neðan og þess sem er að koma upp á yfirborðið. Það eru ekki lengur stór merki um þenslu. Það minnkar líkur á að það haldi áfram að dreifa sér,“ segir hann.

Minnkandi líkur

„Við vonum að það haldi áfram þannig. Það var þannig í morgun, það hægði á þessu, en svo hélt það áfram með mjög svipuðum hraða og hægði ekkert á því í svolítinn tíma. Vonandi er þetta núna komið í þannig jafnvægi að það fari að draga úr gosvirkninni frekar en að hún aukist,“ bætir hann við.

Hann segir að ekki sé hægt að fullyrða um að fleiri sprungur opnist ekki eða að hraunflæði aukist en að líkurnar á því fari minnkandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×