Innlent

Horfði á framtíðarheimilið fuðra upp í beinni út­sendingu

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Hrannar segir atburði dagsins súrealíska. Framtíðarheimili fjölskyldunnar eru nú rústir einar.
Hrannar segir atburði dagsins súrealíska. Framtíðarheimili fjölskyldunnar eru nú rústir einar. Vísir/Sigurjón

Eigandi fyrsta hússins sem varð hrauninu að bráð í Grindavík í dag, segir það hafa verið óraunverulegt að horfa upp á húsið sitt fuðra upp í beinni útsendingu. Hann hafði talið húsið vera á einum öruggasta staðnum í bænum.

Hrannar Jón Emilsson hefur undanfarin ár unnið hörðum höndum að því að byggja sér og fjölskyldu sinni framtíðarheimili í nýjasta hverfinu í Grindavík, hópshverfinu.

Á meðan húsið var í byggingu bjó fjölskyldan í leiguíbúð á Víkurbraut, í húsi sem gjöreyðilagðist í jarðhræringunum þann 10. nóvember. Nýja húsið sem stóð við Efrahóp 19 var nánast tilbúið. Það reyndist verða fyrsta húsið í Grindavík sem varð glóandi hrauni að bráð í dag.

Hús Hrannars varð það fyrsta til að verða hrauninu að bráð í dag.Vísir

„Ég ætlaði að flytja inn í þetta hús, sem ég var að horfa á fuðra upp núna í beinni útsendingu,“ segir Hrannar þegar fréttamaður ræddi við hann skömmu eftir að hraunflæðið náði að húsinu. 

Horfði á húsið brenna og skellti upp úr

Hann segir erfitt að koma tilfinningum sínum í orð á þessari stundu.

„Maður situr og horfir á allt fara í fréttatímanum hér áðan. Allt að fuðra upp fyrir framan mann. Svo byrjar lag, sem maður eiginlega skellti upp úr þegar kom, lagið I‘m sorry. Þetta lag, þegar maður horfir á húsið sitt fuðra upp, maður bara skellir upp úr. Maður veit ekkert hvernig manni á að láta sér líða, brosa, hlæja, gráta, maður veit það eiginlega ekki.“

Eftir atburðina í nóvember taldi Hrannar húsið vera á einum öruggasta staðnum í Grindavík.

„Það virtust ekki koma jarðskjálftar eða neitt inni í þessu húsi. Það höfðu ekki færst til skrúfur eða neitt, það stóð allt algjörlega ósnert. Þannig það var eins og hefði ekki verið neinn atburður þarna.“

Ætlaði að vera kominn inn fyrir vor

Fjölskyldan hefur dvalið í lítilli leiguíbúð í Garðabæ frá því skömmu fyrir jól en stefnan var tekin á að flytja inn í nýja húsið um leið og aðstæður leyfðu.

„Ég setti rafvirkjana bara af stað í síðustu viku, ætlaði að fara græja mig inn fyrir vorið. Þannig þetta breytist hratt.“

Hrannar er útgerðarstjóri Þorbjarnar hf. Aðspurður um hvaða áhrif atburðirnir munu koma til með að hafa á starfsemi fyrirtækisins segir hann Þorbjarnarmenn vera „mjög mikla Grindvíkinga.“

„Öll stefnan er enn svosem bara heim, en við verðum að meta nýjar aðstæður upp á nýtt og vinna úr þeim.“

Rætt verður við Hrannar í kvöldfréttatíma Stöðvar 2, sem verður í opinni dagskrá klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×